Þetta sagði Volodymyr Zelenskyy, forseti í Úkraínu, í ávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar á þriðjudagskvöldið.
Hann sagði að nú reyni Kremlverjar að kreista allan þann sóknarþunga, sem hægt er, út úr rússneska hernum. Þeim liggi á.
Hann sagði einnig að Rússar sæki að Úkraínumönnum þessa dagana á meðan Úkraínumenn og bandamenn þeirra séu að safna liði. „Af þeim sökum skiptir hraðinn miklu máli,“ sagði hann.
„Hraði skiptir öllu. Þetta snýst um að taka ákvarðanir, að framfylgja ákvörðunum, að senda birgðir, þjálfun. Hraði bjargar mannslífum. Hraði færir okkur öryggi á nýjan leik og ég þakka öllum bandamönnum okkar sem hafa áttað sig á að hraði er mikilvægur,“ sagði hann.
Rússar sækja nú að Bakhmut en barist hefur verið um bæinn mánuðum saman. Þar hafa Úkraínumenn varist af mikilli hörku og Rússar hafa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni en halda engu að síður áfram að reyna að ná bænum á sitt vald. Virðist sem Vladímír Pútín, forseti, hafi sett sér það markmið að ná bænum, hvað sem það kostar.
Ef Rússar ná Bakhmut getur það opnað fyrir sókn þeirra að stærri bæjum í Donetsk. Eru Kramatorsk og Slovjansk nefndir sem næstu hugsanlegu skotmörk.
Sigur í Bakhmut myndi einnig blása löngu tímabærum meðvindi í segl rússnesku ríkisstjórnarinnar sem hefur horft upp á her sinn bíða hvern ósigurinn á fætur öðrum á síðustu mánuðum.