Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á mánudaginn að stórsókn Rússa í austurhluta Úkraínu sé hafin.
Eflaust bjuggust sumir við kröftugum árásum á stærri bæi og borgir en það virðist ekki vera taktík Rússa miðað við það sem hefur gerst fram að þessu.
Stoltenberg sagði að Rússar reyni að bæta sér upp skort á gæðum með því að nýta sér fjöldann og séu reiðubúnir til að fórna miklum fjölda hermanna.
TV2 segir að margir vestrænir sérfræðingar hafi einmitt tekið eftir þessu og þá sérstaklega í bardögunum við Vuhledar. Undrast sérfræðingarnir taktík Rússa. Það sama á við um rússneska herbloggara, þeir eru líka hissa.
Upptökur úkraínskra dróna af vígvellinum við Vuhledar sýna rússneska skriðdreka og fótgönguliða reyna að sækja fram yfir opið landsvæði á meðan Úkraínumenn láta stórskotaliðsskothríð rigna yfir þá. Skriðdrekunum er ekið á jarðsprengjur og hörfa í skyndingu en sumir komast ekki til baka, þeir loga. CNN skýrir frá þessu og segir þetta sviðsmyndina af bardögunum við Vuhledar síðustu tvær vikur.
Á sunnudaginn sagði breska varnarmálaráðuneytið, í daglegri stöðufærslu sinni um gang stríðsins, að á síðustu sjö dögum hafi Rússar líklega orðið fyrir mesta manntjóni sínu síðan í upphafi innrásarinnar. Sagði ráðuneytið að þeir hafi líklega misst 824 hermenn á dag, að meðaltali.
Sóknin við Vuhledar hefur reitt marga rússneska herbloggara til reiði, þar á meðal Igor Girkin sem stýrði baráttu úkraínska aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu 2014. „Aðeins aular sækja fram á sama staðnum mánuðum saman, stað þar sem sterkar varnir eru og mjög óhagstætt að sækja fram,“ skrifaði hann á Telegram að sögn CNN.
Því hefur verið velt upp hvort þessari taktík Rússa með litlum sóknum á langri víglínu sé ætlað að valda ruglingi um hvar stórsókn þeirra verði gerð.
Carsten Rasmussen, fyrrum herforingi í danska hernum, sagði í samtali við Politiken að Rússar virðist vera að nota aðferð sem Sovétríkin notuðu með góðum árangri gegn Þjóðverjum 1944. Hún nefnist „bite and hold“ (bíttu og haltu). Hún gengur út á að gera litlar sóknir á mörgum stöðum og síðan halda því svæði sem næst. Hann sagði að Úkraínumenn verði að halda ró sinni, halda stöðum sínum og takast á við þessar sóknir og ekki senda varalið sitt of snemma af stað. „Eldri úkraínskir herforingjar þekkja líklega þessa taktík. Þeir hafa líka lært rússneska stríðssögu,“ sagði hann.