Verkfall hjá Eflingu er hafið. 70 vörubílstjórar hjá Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu, og 500 starfsmenn Berjaya-hótela og Edition lögðu niður störf kl. 12 og halda áfram í verkfalli þangað til því hefur verið aflýst af félaginu. Þegar eru um 300 Eflingarfélagar á Íslandshótelum í verkfalli.
Baráttu- og upplýsingafundur Eflingar hófst kl. 12 í Norðurljósasal Hörpu og stendur til kl. 16. Á þessum fundi getur fólk sem lagt hefur niður störf staðfest þátttöku sína í verkfallinu, skráning vegna verkfallsstyrkja fer fram, lifandi tónlist verður spiluð, haldnar verða ræður, matur og drykkur verða í boði og upplýsingar gefnar um hvernig er hægt að taka þátt í verkfallsvörslu.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilunni, boðaði aðila til fundar kl. 9 í morgun, en ekki samdist milli aðila fyrir hádegi.