Allt frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tæpu ári hafa Vesturlönd séð Úkraínu fyrir vopnum af ýmsu tagi, nú síðast lofuðu þau að senda skriðdreka til úkraínska hersins og þjálfun úkraínskra hermanna, í meðferð vestrænna skriðdreka, er hafin í Evrópu.
En mörg Evrópuríki eru hikandi þegar kemur að því að senda Úkraínumönnum orustuþotur. Hugsanlega eru það áhyggjur af því að stríðið muni þá stigmagnast sem halda aftur af þeim.
Þetta sagði Esben Salling Larsen, majór og hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, í samtali við TV2. Hann sagði að áhyggjurnar snúist um að ef Úkraínumenn fái orustuþotur geti þeir gert árásir á Rússland, langt inn í Rússlandi, með þeim.
Hann sagði að sumar þeirra flugvélategunda, sem rætt hefur verið um, opni á möguleikann til að gera árásir mörg hundruð kílómetra inni í Rússlandi og það myndi stigmagna stríðið.
Úkraínumenn eiga nú þegar og nota MiG-29 orustuþotur sem eru gamlar vélar frá tímum Sovétríkjanna. Larsen benti á að þetta séu vélar sem Úkraínumenn kunni á og séu algengar. Meðal annars eiga mörg NATO-ríki slíkar vélar og það sama á við um ríki í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku.
„Það er því möguleiki á að hægt verði að kaupa þær á ýmsum stöðum ef gripið er til réttra ráðstafana,“ sagði hann.
Hann sagði að Úkraínumenn hafi ekki bara áhuga á vélum af þessu tagi. Ef þeir fái vélar af öðrum tegundum þurfi að þjálfa reynda orustuflugmenn til að nota þær. Það tekur þrjá til sex mánuði að hans sögn.
Hann sagði að Úkraínumenn verði á einhverjum tímapunkti uppiskroppa með orustuflugvélar og geti þá ekki lengur haldið uppi sömu vörnum í lofti og fram að þessu. „Vélarnar slitna með tímanum og Úkraína missir stöðugt vélar, svo á einhverjum tímapunkti er þörf fyrir nýjar vélar til að koma í staðinn,“ sagði hann.
Hann sagðist ekki geta sagt til um hvenær Úkraínumenn standa frammi fyrir alvarlegum skorti á flugvélum. „Það er eitthvað sem Úkraínumenn halda leyndu því það verður mjög alvarlegt fyrir þá ef þeir verða uppiskroppa,“ sagði hann. Af þeim sökum heldur Zelenskyy spilunum mjög þétt að sér þegar kemur að því að ræða hvenær Úkraínumenn verða uppiskroppa með flugvélar.