Margrét Friðriksdóttir, sem er stofnandi og ritstjóri Fréttin.is, neitar að taka út umdeilda Facbebook færslu sem farið hefur sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum.
Margrét var sakfelld í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir lífslátshótun gegn Semu Erlu Serdar, baráttukonu og stofnanda hjálparsamtakanna Solaris. Var Margrét dæmd til 30 daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar og þarf að greiða lögmanni sínum, Arnari Þóri Jónssyni, um milljón í málsvarnarlaun.
Óhætt er að segja að Margrét hafi verið afar ósátt við dóm Héraðsdóms. Birti hún í gærkvöldi opna færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði dóminn viðbjóðslegan og fór ófögrum orðum um dómara málsins og sagði hana hafa selt sálu sína.
Auk ókvæðisorða sem ekki verða höfð eftir sagði Margrét að dómarinn hafi ekki tekið mark á vitnisburði sínum sem vitni hafi staðfest. „Þetta siðblinda pakk er auðsjáanlega að kalla eftir stríði sem þau munu fá, því ranglæti er eitthvað sem ég mun aldrei samþykkja, og enginn vill lenda á þeim stað.“ Þá sagði hún að úrskurðurinn væri til marks um að frumskógarlögmál stjórni landinu.
„…dómari hafði samband við lögmann minn og bað um að þessi færsla yrði tekin út. Þessi kona dæmir mig saklausa í fangelsi fyrir að öskra á kellingu fyrir tæpum 5 árum síðan, fyrir að henda mér útaf bar sem pabbi hennar átti, vegna minna skoðana. Dómarinn tekur ekki mark á vitnum og falsar vitnisburði sem komu skýrt fram í dómnum. Fyrir mér er þetta glæpsamleg hegðun og þarna augljóslega verið að misnota dómsvaldið til að hefna sín á borgurum,“ segir Margrét.
Margrét breytti síðar færslu sinni úr því að vera opin öllum og er hún nú aðeins sjáanleg þeim sem eru vinir hennar á Facebook.
Samkvæmt heimildum DV hefur Arnar Þór Jónsson, lögmaður, sagt sig frá máli Margrétar í kjölfar færslunnar. Arnar Þór vildi ekki staðfesta þetta í samtali við DV en tók fram að samfélagsmiðlar væru ekki rétti staðurinn til að reka dómsmál.
Fréttin hefur verið uppfærð.