fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Heimilishrotti hlaut 12 mánaða dóm fyrir ofbeldi gegn barnsmóður og þriggja vikna barni þeirra – Fékk 4 ára dóm 2017 fyrir enn grófara ofbeldi gegn fyrri sambýliskonu

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 8. desember 2023 22:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur staðfesti í dag 12 mánaða fangelsisdóm yfir karlmanni fyrir brot í nánu sambandi  og barnaverndarlagabrot með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað  heilsu og velferð þáverandi kærustu og barnsmóður sinnar, og sameiginlegrar dóttur þeirra sem þá var þriggja vikna gömul.

Málið var höfðað með ákæru 10. janúar 2022 og segir í ákæru að maðurinn hafi að morgni miðvikudagsins 2. desember 2020 ruðst inn á heimili konunnar og barns þeirra með því að kýla konuna hnefahögg í andlit þar sem hún stóð með barnið í fanginu þá þegar og konan  opnaði útidyrnar og haldið þeirri árás áfram inni í íbúðinni með ítrekuðum hnefahöggum í andlit konunnar, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað beðið ákærða um að hætta vegna ógnunarinnar sem árásin skapaði gagnvart heilsu og velferð barnsins, uns konan féll fram fyrir sig á stofugólf með barnið í fanginu en sleppti þar takinu af henni og ýtti henni eftir gólfi undan árásinni. Ákærði  hélt  árásinni  áfram  gagnvart konunni með  því  að  rífa  í  hár  hennar  og  endurtekið kýla  og sparka í líkama  hennar, allt  framangreint  með þeim afleiðingum að barnið grét.

Konan hlaut glóðarauga  undir hægra auga, sár á enni og hægra kinnbeini og eymsli í hársverði, við rifbein og yfir háls og brjósthrygg, auk  þess  sem  í  háttseminni  fólst  andleg  og  líkamleg  misþyrming, ógnanir,  yfirgangur,  vanvirðandi  og ruddalegt athæfi gagnvart barninu. Konan gerði kröfu um miskabætur, 2 milljónir króna fyrir sína hönd og 1,5 milljón króna fyrir hönd dótturinnar. 

Lögregla hélt fyrir augu ákærða

Ákærði viðurkenndi að hafa slegið konuna tvö til þrjú högg í andlitið, en neitaði sök að öðru leyti. Hann samþykkti bótaskyldu gagnvart konunni, en taldi fjárhæðina of háa, en hafnaði alfarið bótaskyldu gagnvart dótturinni.

Í svokallaðri „aðkomuskýrslu“ lögreglu segir að fyrr um morguninn hafi lögregla verið kölluð á sama vettvang vegna ákærða sem hafi verið að reyna að komast inn til brotaþola. Gaf lögregla sig þar á tal við ákærða, sem var þá í íbúð á móti íbúð brotaþola og tjáði honum að hann væri óvelkominn heim til brotaþola. Þá segir að þegar lögregla kom á staðinn í seinna skiptið þá hafi brotaþoli komið til dyra og virst hrædd og skelkuð. Hún hafi endurtekið setningarnar „það gerðist ekkert, þetta er allt í lagi“, en verið með mar og áverka eins og áður segir. Fram kemur í gögnum málsins að ákærði er faðir barnsins og að hann og konan voru par og bjuggu saman á þessum tíma

Tveir lögreglumenn sem handtóku ákærða á heimili hans á Selfossi sögðu báðir fyrir dómi að þeir hafi veitt því  athygli að ákærði hafi horft bláköldum augum á brotaþola meðan hann hafi verið leiddur út, sem hafi orðið til þess að annar lögreglumaðurinn hafi sett hendur fyrir  andlit  ákærða, vegna  þess að augnaráð ákærða hafi verið mjög óhugnanlegt.

Sama dag og árásin átti sér stað var ákærða gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni. Þann 30. desember mætti konan á lögreglustöð og óskaði eftir að nálgunarbannið yrði fellt úr gildi, en öðru leyti stæði framburður hennar óbreyttur og jafnframt að hún héldi kæru sinni til streitu. Var nálgunarbannið fellt úr gildi með ákvörðun lögreglustjóra 31. desember 2020. Þá kom konan á lögreglustöð 12. janúar 2021 og óskaði eftir að draga refsikröfu sína í málinu til baka og kvaðst ekki vilja gera bótakröfu. Aðspurð um fyrri framburð sinn kvaðst hún vilja nýta rétt sinn til að tjá sig ekki, en óskaði ekki eftir að draga framburð sinn til baka. 

Sagði áverka á hnúum vegna bílhurðar

Fyrir dómi kvaðst ákærði lítið muna eftir árásinni, sagðist hann ekki hafa séð dótturina, sagðist hafa slegið brotaþola nokkur högg í andlit, en ekki séð áverka á henni, sagðist hann hafa verið í miklu rugli á þessum tíma og undir áhrifum þegar árásin átti sér stað. Aðspurður um mar á hnúum og handarbaki sagðist hann hafa verið tekinn á bíl um nóttina á bensínstöð og hann hafi verið að dæla bensíni og svo hafi hann óvart klemmt sig á bílhurðinni þegar hann hafi lokað.

Konan sagði manninn hafa hringt af djamminu í Reykjavík og ekki átt peninga fyrir leigubíl heim á Selfoss. Hún hafi fallist á að greiða bíllinn, maðurinn fór hins vegar í aðra íbúð í húsinu og þá var henni ljóst að hann ætlaði að halda drykkju áfram og hún ekki viljað fá hann inn á heimilið. Nokkrum tímum seinna hafi ákærði reynt að sannfæra hana um að hann væri kominn í stand og orðinn góður og hvort hann megi ekki koma og hafi lofað öllu fögru. Hún hafi hikað, en samt farið til dyra enda hafi ákærði ekki hætt að banka. Dóttirin hafi vaknað og hún hafi tekið hana og farið að hurðinni og reynt að tala við ákærða í gegnum hurðina og hann lofað að vera góður og fara beint í háttinn. Hafi hún svo opnað dyrnar og þá hafi hann ýtt hurðinni  strax upp og umsvifalaust  slegið hana  hnefahögg í andlit

Um hálfri mínútu áður en lögreglan kom hafi ákærði staðið upp og hætt að berja hana og gengið að sófanum. Hún hafi tekið barnið upp og sett hana í vögguna hennar og þá hafi lögreglan komið og ákærði verið sestur í sófann og þóst vera ógeðslega saklaus. Hafi ákærði sagt konunni að segja ekkert við lögregluna og þegja. Hún hafi opnað fyrir lögreglunni sem hafi komið inn og spurt hvort ákærði væri þarna. Hún hafi ekki þorað að segja já en  horft  inn  í  íbúðina  og  þeir  þá  farið  þangað  og  séð  ákærða  í  sófanum  og  handtekið hann  og farið með hann. Þetta hafi allt gerst hratt. Þá lýsti konan því að barnið sé enn smeyk við ákærða og þori ekki að fara strax í fang hans þegar þau hittist.

Árás tveggja karlmanna mögulega fyrir tilstilli ákærða

Þá kvað konan að þetta sé einhver versti dagur sem hún hafi lifað og þetta sitji mjög í henni. Hún hafi átt mjög erfitt eftir þetta. Aðspurð kvaðst konan  hafa  leitað sér aðstoðar við að komast  út  úr  þessu ofbeldissambandi, hún hafi verið hjá sálfræðingum, Barnavernd og leitað sér allrar hjálpar  sem  hún  hafi  getað  fengið. Hún  hafi  ítrekað  blokkað  ákærða  á  samfélagsmiðlum  en  hann  komi alltaf aftur og þykist  vera  niðurbrotinn og að hún þurfi að hjálpa honum.  Ákærði ætlist til að hún verði bjargvættur hans og hún hafi reynt það í heilt ár, en það hafi engu skilað. Eftir það atvik sem lýst er í ákæru hafi  framkoma  ákærða  gagnvart  henni  ekki  verið  góð.  Hann  hafi  verið  með  hótanir,  ógeðslegar orðasendingar, hann hafi lagt hendur á hana aftur. Auk þess hafi verið ráðist inn á heimili hennar og henni gerðir ógeðslegir hlutir, en hún viti ekki hvort séu af hans völdum og það hafi ekki verið sannað, en ákærði hafi þó eitt sinn beðið hana afsökunar á því atviki og sagt að það væri sennilega honum að kenna. Aðspurð kvað konan að  þetta  hafi verið þannig að tveir  menn hafi brotist inn á  heimili hennar, barið hana  og misnotað, skorið hana og gert við hana ógeðslega hluti. Þetta mál sé til rannsóknar hjá lögreglu. Í dag sé staðan sú að ákærði sé með óþverraskap við hana þangað til hann sé orðinn lítill í sér, en þá játi hann ást sína til hennar. Þá hafi ákærða reynt að fá hana til að mæta ekki fyrir dóm og flýja land með sér. Samband ákærða við barnið í dag sé ekkert. Aðspurð um það þegar konan óskaði eftir að draga kæru sína til baka kvað hún það hafa verið eftir beiðni frá ákærða, í trausti þess að hann sæi að sér, sem hafi ekki gengið eftir.

Kom fram að konan hafi síðan í september 2021 tekið þátt í úrræði á  vegum Starfsendurhæfingar og sé ætlað konum með áfallasögu tengda ofbeldi. Brotaþoli eigi langa áfallasögu og því sé erfitt að skilgreina nákvæmlega  hvernig  ofbeldi  ákærða  hafi  haft  áhrif.  Er  í  vottorðinu  lýst  frásögnum  brotaþola um margháttað og langvarandi ofbeldi í hennar garð af hálfu ákærða, bæði andlegu og líkamlegu, en engum tilteknum atvikum

Framburður konunnar trúverðugur

Fjöldi vitna kom fyrir héraðsdóm, þar á meðal sjö lögreglumenn sem komu á vettvang. Taldi héraðsdómi framburð konunnar afar trúverðugan og einlægan og í samræmi við framburð vitna og skrifleg gögn. 

Mat dómari það svo að með árásinni hafi ákærði á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð beggja brotaþola með því ofbeldi sem hann beitti. Engu máli skiptir þó að engin högg hafi beinst sérstaklega að barninu, þar sem ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga verndar öll börn sem búa við heimilisofbeldi hvort sem verknaður eða aðferð sem beitt er til að skapa ástand ógnar, ofríkis eða kúgunar beinist beinlínis gegn þeim eða ekki.

Ákvæðið hljóðar svo: 

Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Ákærði hafði átta sinnum áður hlotið dóm, þar af tvo fyrir ofbeldisbrot. Árið 2017 hlaut hann fjögurra ára dóm fyrir gróft ofbeldi gegn fyrri sambýliskonu. 

Sjá einnig: Fjögurra ára fangelsi fyrir gróft ofbeldi

Fyrir Landsrétti kom fram að ákærði hafði eftir að árásin átti sér stað farið á fíknigeðdeild og þaðan á Vog. Parið hefði tekið saman aftur, en hann fallið eftir fimm mánuði og þau þá hætt saman. Sagðist hann í dag hafa tekið sig á, væri nýlega kominn úr meðferð og á leið í langtímameðferð.

Var hann dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar með dómi héraðsdóms. Einnig ber honum að greiða konunni 1,5 milljón króna og dótturinni 1 milljón króna í miskabætur, auk alls sakarkostnaðar 3.430.194 krónur. Landsréttur staðfesti dóminn um annað en fjárhæð bóta, sem voru lækkaðar í 1 milljón króna til konunnar og 500 þúsund krónur fyrir dótturina. Var ákærða jafnframt gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, 1.747.129 krónur.

Dómana má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp
Fréttir
Í gær

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars