Jónmundur Guðmarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Seltjarnarness og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu í dag. Að auki var félag í hans eigu, Polygon slf., gjaldþrota en úrskurðarnir voru kveðnir upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. desember síðastliðinn.
Gjaldþrotin má rekja til þess að í desember 2021 var Jónmundur dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum fyrir að gefa upp tilhæfulausan kostnað í skattframtölum áðurnefnds félags, Polygon, fyrir árin 2014 til 2016. Nam oftalning rekstrargjalda um 61,5 milljónum króna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness.
Auk fangelsisdómsins var Jónmundi gert að greiða 66,5 milljóna króna sekt í ríkissjóð. Var það honum metið til málsbóta að hann játaði brot sín að langstærstum hluta og sýndi fulla samvinnu við rannsókn málsins.