Ríkharður Sveinsson, formaður Taflfélags Reykjavíkur, er látinn á 57. aldursári, fæddur 28. desember 1966. Hann lést 20. desember síðastliðinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir skammvinn veikindi.
Ríkharður sinnti sjálfboðaliðastarfi hjá Taflfélagi Reykjavíkur í rúm fjörtíu ár og var skáksamfélaginu gríðarlega mikilvægur. Hann var formaður TR á árunum 1997-2001 og svo aftur frá 2019 til dauðadags. Sem formaður skipulagði hann fjölda skákmóta, fyrir börn sem og á atvinnumannastigi, en að auki var hann einn virtasti skákdómari landsins og gegndi því starfi efsta stigi, til að mynda Reykjavíkur- og Ólympíuskákmótum. Þá var hann sjálfur afar öflugur skákmaður.
Tíðindin af fráfalli hans voru gríðarlegt áfall fyrir íslenskt skáklíf.
Í andlátstilkynningu í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að Ríkharður var sonur þeirra Sveins Guðmundssonar rafmagnsverkfræðings, sem er látinn, og Ingrid Guðmundsson verslunarmanns, sem bjuggu í Reykjavík. Hann var fimmti í röðinni meðal sex systkina og stundaði nám við Menntaskólann í Hamrahlíð. Þá lagði hann stund á þýsku við Háskóla Íslands sem var honum mjög hugleikin enda móðir hans þaðan.
Eftir starfsferil hjá Sýslumanninum í Reykjavíkur og Heklu fór Ríkharður að starfa á eigin vegum fyrir ýmsa lögfræðinga og sinnti þá margvíslegri umsýslu fyrir þá við uppgjör, slit á búum og eignasölu. Þetta var aðalstarf hans síðustu árin og var hann með skrifstofuaðstöðu í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur sem gerði það enn frekar að verkum að hann var alltaf til staðar fyrir skáksamfélagið.
Ríkharður var gríðarlegur safnari og sankaði að sér munum sem tengdust skák á Íslandi og þá sér í lagi frá heimsmeistaraeinvígi Fischer-Spasskys sem haldið var á Íslandi 1972. Átti hann fjölda muna sem tengjast þeim sögulega atburði. Þá lagði Ríkharður sig einnig eftir að ná í hús íslenskum myndasögum, ljóðabókum og póstsögutengdu efni eins og póstkortum og bréfum.
Eftirlifandi eiginkona Ríkharðs er Jóna Kristjana Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Hugverkastofu, og þau eiga soninn Halldór sem er 16 ára og nemandi í framhaldsskóla.