Maður og kona með tvöfalt ríkisfang hafa verið ákærð fyrir peningaþvætti eftir að þau voru handtekin í Leifsstöð með mikið magn peningaseðla. Ekki hefur tekist að birta þeim ákæruna.
Fólkið heitir Mohammed Musah, 43 ára, og Petra Anarfo, 21 árs, bæði með ítalskt og ganverskt ríkisfang.
Þau voru handtekin í Leifsstöð þann 1. maí síðastliðinn þegar þau voru á leið í flug til ítölsku borgarinnar Mílanó.
Höfðu þau alls 28.180 evrur meðferðis í reiðufé, sem gera um 4,25 milljónir íslenskra króna. 18.160 evrur voru faldar í farangri Mohammeds en 10.020 evrur faldar í farangri Petru. Var reiðuféð haldlagt af Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Eru þau ákærð fyrir að hafa, í félagi, tekið við peningunum frá 28. apríl til 1. maí frá óþekktum einstakling eða einstaklingum. Hafi þeim ekki geta dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum.
„Með háttsemi sinni móttóku ákærðu ávinning af refsiverðum brotum, geymdu ávinninginn, fluttu og leyndu ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans,“ segir í fyrirkalli og ákæru sem birt voru í Lögbirtingablaðinu í dag. En ekki hefur tekist að birta þeim ákæruna með öðrum hætti því ekki er vitað hvar þau dvelja.
Eru Mohammed og Petra ákærð fyrir peningaþvætti að ásetningi sem er brot sem getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Til vara eru þau ákærð fyrir peningaþvætti af gáleysi, sem getur varðað allt að 6 mánaða fangelsi.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krefst þess að þau verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess einnig krafist að reiðuféð sem haldlagt var verði gert upptækt og sett á vörslureikning lögreglustjórans.