Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Benedikt G. Ófeigssyni og Þorvaldi Þórðarsyni, jarðvísindamönnum, að þróun landrissins á síðustu dögum líkist því sem átti sér stað fyrir gosið 18. desember.
Þorvaldur sagði að landrisið geti endað með kvikuhlaupi eins og varð 10. nóvember eða gosi svipuðu því sem varð fyrr í mánuðinum. Aðspurður sagðist hann telja líklegra að til goss komi. „Þetta gæti orðið í fyrstu vikunni í janúar,“ sagði hann.
Hann sagðist gruna að landrisið verði svipað og síðast og nefndi Kröfluelda sem dæmi til samanburðar. Þar hafi reynslan verið að þegar svipaðri hæð og í síðasta atburði var náð, þá gerðist eitthvað.
Hvað varðar stærð hugsanlegs goss sagðist Þorvaldur búast við gosi af svipaðri stærð.
Benedikt G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, sagði stöðuna mjög svipaða. „Þetta lítur mjög svipað út. Ég held að þetta sé alveg hárrétt. Þetta er bara endurtekning á merkinu síðan fyrir 18. desember,“ sagði hann aðspurður um hvort landrisið síðustu daga líkist þróuninni í aðdraganda gossins 18. desember.
Hann sagði ekki útilokað að nýársgos muni eiga sér stað en erfitt sé að segja til um tímasetninguna.