Dýrahjálparsamtökin Dýrfinna hvetja fólk til að fara eftir lögum um hvenær megi sprengja flugelda og hvenær ekki. Það skipti dýraeigendur mjög miklu máli.
„Gæludýraeigendur treysta á að almenningur fari eftir lögum um notkun flugelda,“ segir í tilkynningu frá Dýrfinnu sem birt var núna um jólin.
Þetta sé ekki að ástæðulausu. Á undanförnum árum hafa komið upp atvik þar sem verið vara að sprengja flugelda utan leyfilegs tíma og það komið gæludýraeigendum að óvörum. Höfðu þeir því ekki tækifæri til þess að undirbúa dýrin.
„Eitt af þessum atvikum var þegar hundur var á löglegu lausagöngu svæði, flugeldar voru sprengdir nálægt, hundurinn fældist í burtu endaði á að hlaupa fyrir bíl og lifði það ekki af,“ segir í tilkynningunni. Vitað er um fleiri sambærileg dæmi
Til að koma í veg fyrir svona slys sé mikilvægt að fylgja reglugerð stjórnvalda um notkun flugelda. En þá má aðeins sprengja dagana 28. desember til 6. janúar. Þó ekki frá 22:00 til 10:00 nema á nýársnótt.
„Við viljum hvetja alla sem sækja um leyfi fyrir flugeldasýningu utan leyfilegs tíma að auglýsa sýningarnar MJÖG VEL í hverfishópum viðeigandi hverfis sem og nágrennis. Einnig er sterkur leikur að auglýsa þær inná Hundasamfélaginu,“ segir Dýrfinna.