Vegna veðurs og snjóflóðahættu mun veginum um Súðavíkurhlíð á Vestfjörðum verða lokað kl 22:00 í kvöld.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni sem var að berast rétt í þessu.
Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi á Vestfjörðum klukkan 5 í fyrramálið og er í gildi til klukkan 10. Segir Veðurstofan að búast megi við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metra á sekúndu. Einnig sé spáð talsverðri eða mikilli snjókomu og éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir séu líklegar og ekkert ferðaveður sé á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Aukin snjóflóðahætta er talin vera á Vestfjörðum og verður varpskipið Freyja til taks í Ísafjarðarhöfn.