Í jólakveðju sinni fyrir árið sem er að líða fer Miðflokkurinn í Grindavík yfir aðstæðurnar sem íbúar hafa verið í frá 10. nóvember þegar bærinn var rýmdur.
Segir sá sem skrifar færsluna að í lok hvers árs sé alla jafna farið yfir hvert orð ársins er, eitthvað orð sem komst í almenna umræðu á árinu, nýyrði eða annað.
„Tíðrætt hefur verið í lok síðastliðinna ára hvert orð ársins á að vera og margir sem senda inn tillögur með sín uppáhalds orð. Í huga íbúa Grindavíkur held ég að einungis eitt orð komi til greina, það er orðið „tilfinningarússíbani.“ Það orð nær yfir okkur flest í dag, reiði, svartsýni, bjartsýni, hræðsla, pirringur, æsingur yfir smámunum og í mjög mörgum tilfellum þakklæti.“
Segist í færslunni að það sem trufli marga íbúa Grindavíkur í dag „er að geta ekki búið í okkar fallega samfélagi þar sem við mörg höfum argast yfir hinu og þessu en þegar við erum svo út um hvippinn og hvappinn sundruð í hinum ýmsu samfélögum sjáum við mörg hversu gott við höfum það heima í Grindavík. Það á ekki við okkur öll að horfa þannig á hlutina og eflaust erum við líka að sjá hversu vel er gert í öðrum samfélögum sem við dveljumst í núna og hvað við megum bæta þegar við förum heim. Að fara heim, það er hugsun sem er ekki í hugum okkar allra eins og er. Aðstæðurnar sem við erum að lenda í sem íbúar Grindavíkur er eitthvað sem engum eða örfáum hefði órað fyrir að gæti gerst.
Í færslunni er Íslendingum um land allt þakkað fyrir að hafa tekið opnum örmum á móti Grindvíkingum og ríkisstjórninni fyrir að hafa komið inn með leigustyrki fyrir þá sem þurfa og samkvæmt upplýsingafundi Almannavarna 20. desember verður sá stuðningur framlengdur til vors. Auk þess hefur leigufélagið Bríet keypt 70 íbúðir sem ætlaðar eru Grindvíkingum og Bjarg sem er í eign stéttarfélaganna keypt sjö íbúðir. Þær íbúðir eigi að vera tilbúnar fyrir jól sem betur fer og þá eigi nánast allir að vera komnir með samastað yfir hátíðarnar.
„Bankarnir, sum tryggingafélög, símafélög og fleiri hafa staðið sig í stykkinu gagnvart okkur en Lífeyrissjóðirnir draga lappirnar í lausnum fyrir sjóðsfélaga sína sem eru með húsnæðislán hjá þeim. Þeir fá álit frá lögfræðistofu um hvort þeir megi fella niður vexti og verðbætur en virðast ekki spyrja lögfræðistofuna um hvað þeir geta gert til þess að koma til móts við sjóðsfélaga sína sem er miður. Þarna kemur reiðin inn sem hluti af tilfinningarússíbananum og hún á svo sannarlega rétt á sér,“ segir í færslunni.
„Nú eru liðnar sex vikur frá því að við þurftum að rýma Grindavík og loksins kom eldgosið sem við höfum verið að bíða eftir til að létta á þrýstingnum þarna niðri. Þennan sama dag og eldgosið var þá kíktu nokkrir bæjarfulltrúar inn í Grindavík. Aðstæður í Grunnskóla Grindavíkur skoðaðar og hittum hluta af okkar besta fólki sem hefur unnið hörðum höndum að koma Grindavík í samt lag aftur. Við fengum upplýsingar um stöðu skólabygginga, leikskóla og íþróttamannvirkja. Það er misjafnt ástandið en ekkert sem ekki má laga og koma í sambærilegt horf. Það eru allir að reyna að vinna að sama markmiði, að koma samfélaginu okkar aftur í gang. Pólítíkin er að vinna bak við tjöldin með ríkisvaldinu og leita lausna í þeim málum sem þarf að leysa.“
Færsluritari segir ljóst að ekki er lengur hægt að horfa á að aðstæður Grindvíkinga eigi að vera skammtímavandamál 1200 fjölskyldna þar sem stór hluti af þessum fjölda eru barnafjölskyldur sem þarf að koma börnum sínum í leikskóla og skóla utan Grindavíkur.
„Þessar fjölskyldur þurfa úrræði stjórnvalda og lánastofnana þann tíma sem börnin þeirra og þau sjálf þurfa að dvelja annars staðar en í Grindavík. Það er allskonar aukakostnaður sem hleðst upp í hverri viku sem við þurftum ekki að hafa áhyggjur af heima. Ef við eigum að reyna að vera lausnamiðuð og hugsa um það sem stjórnvöld geta gert fyrir barnafjölskyldur þá geta þau til dæmis veitt sérstaka styrki sem gætu þess vegna heitið dagpeningar og/eða ökutækjastyrkir. Einnig væri hægt að skoða það að persónuafsláttur foreldra barna í Grindavík hækki árið 2024 og jafnvel þeirra sem eru með húsnæðislán frá lífeyrissjóðum.“
Í færslunni er bent á að það hefur verið mikil umræða um varnargarða fyrir ofan Grindavík og eftir að ljósmynd sem er tekin „með dróna nærri svo kallaðri Kanaheiði sem sýnir stóran hluta af bænum okkar skammt frá upptökum af Sundhnúka gosinu fór í dreifingu á samfélagsmiðlum þá er manni spurn af hverju það er ekki byrjað á þessum görðum? Mælar í nágrenni við Svartsengi nema enn að það sé örlítið landris í gangi samkvæmteinhverjum jarðfræðisíðum og þá er um að gera að vera við öllu búin komi til þess að eldgos hefjist aftur og muni þá mögulega teygja sig sunnar. Annað er bara kæruleysi að okkar mati.
Það er ljóst miðað við síðasta hættumat Veðurstofu Íslands og ákvörðun Lögreglustjóra Suðurnesja að við Grindvíkingar getum ekki notið jólanna heima hjá okkur þó að margir hafi undirbúið sig til þess. Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari hefur komið með lagaleg sjónarmið þess efnis að ekki væri heimilt að halda Grindvíkingum frá eignum sínum svo lengi sem þeir eru ekki að skapa öðrum hættu. Svo lengi sem það verði ekki einhverjir stórir atburðir næstu daga má þá reikna með því að þeir sem kölluðu eftir þessum sjónarmiðum frá honum muni jafnvel gista heima yfir jólin og eigi að vera þeirra ákvörðun en ekki almannavarna eða lögreglustjóra.“
„Jólin koma eftir sem áður og við munum eiga það umfram aðra að þessar minningar sem tengjast þessum skrítnu tímum í lífi Grindjána munu lifa um ókomna tíð og vera í sögubókum barna, barnabarna, barnabarnabarna og svo framvegis. Þetta eru minningar sem við hefðum viljað sleppa við að upplifa en við fáum ekki við það ráðið að stjórna náttúrunni. Það munu koma upp fjölmörg tækifæri næstu áratugi fyrir fyrirtæki í Grindavík í kjölfarið af þessum atburðum sem hafa hent okkur undanfarin ár sem mun vonandi gera Grindavíkursamfélagið enn betra. Mikið af fólkinu okkar hefur birt fallega pistla á Facebook sem innihalda mikið af tilfinningum sem við hin erum mjög þakklát fyrir að lesa og sjá að upplifunin á þessum tímum er víða ansi lík okkar eigin tilfinningum. Við munum komast í gegnum þetta saman, það er alveg klárt.
Núna er ekki verra að hugsa þessi jólin að við erum „erlendis“ og völdum samt ekki Tenerife eða Kanaríeyjar í þetta skiptið nema þau ykkar sem raunverulega verða þar til að halda jólin! Við í Miðflokknum í Grindavík viljum óska öllum Grindvíkingum og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.“