Foreldraráð í leikskólanum Bergheimum Í Þorlákshöfn fór fram á það við sveitarstjórn Ölfus að vistunar- og fæðisgjöld séu felld niður þegar skólastarf er skert. Er vísað til kvennaverkfallsins 24. október í þessu samhengi.
Málið var tekið fyrir hjá bæjarráði Ölfus í gær, 21. desember. Þá var einnig óskað eftir því að felld verði niður vistunar- og fæðisgjöld í dag, 22. desember, sem og dagana á milli jóla og nýárs.
Bergheimar er Hjallastefnuskóli og eini leikskólinn í Þorlákshöfn. Sveitarstjórn lét bóka að þeir starfsmenn Hjallastefnunnar sem gengu frá störfum í kvennaverkfallinu hafi væntanlega gert það í samráði við sinn atvinnurekanda, sem er Hjallastefnan.
„Það var því hvorki með vitund eða á ábyrgð sveitarfélagsins ef þjónusta var skert þann dag,“ segir í bókuninni.
Almennt séð þá hafi þó starfsmönnum sveitarfélagsins verið veitt svigrúm til að taka þátt í kvennaverkfallinu.
Ekki verður orðið við því að fella niður vistunargjöld þessa daga í kringum jólin. Ekkert í samningum á milli Ölfus og Hjallastefnunnar kveði á um að þjónusta sé skert þessa daga og „því vart hægt að sjá þá öðrum augum en aðra þá þjónustudaga sem foreldrar velja að nýta ekki, svo sem í aðdraganda páska, í sumarorlofum o.fl.“
Eðlilegt sé hins vegar að fæðisgjald sé fellt niður sé það ónýtt og tilkynnt með góðum fyrirvara.