fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Sveinn segir að enginn ætti að vera í Grindavík: „Hvers eiga hinir svokölluðu viðbragðsaðilar að gjalda?“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. desember 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það ætti enginn að vera í Grindavík. Þrátt fyrir það er bærinn opnaður og viðbragðsaðilum gert að vera á hættusvæði ef eitthvað færi úrskeiðis. Hvers eiga hinir svokölluðu viðbragðsaðilar að gjalda?“

Þetta segir Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í gærkvöldi.

Sveinn er nokkuð gagnrýninn á þá ákvörðun að íbúar Grindavíkur fái að dvelja og starfa í bænum frá klukkan 7 til 16 í ljósi þeirrar atburðarásar sem hefur átt sér stað á Reykjanesi síðustu vikur.

Hætta á gosopnun án fyrirvara

Vísar hann meðal annars í hættumatskort Veðurstofunnar þar sem fram kemur að töluverð hætta sé á gosopnun án fyrirvara í Grindavík auk þess sem hætta sé á sprunguhreyfingum og jarðskjálftum.

„Á hluta Grindavíkurvegar og Bláalónsvegar metur Veðurstofan mjög miklar líkur á skyndilegri gosopnun ásamt öðrum hættum af völdum jarðhræringanna.“

Sveinn, sem vakti athygli fyrir skrif sín eftir atburðina í Grindavík þann 10. nóvember síðastliðinn og kallaði meðal annars eftir tafarlausri lokun Bláa lónsins, segir að hættumatskort Veðurstofunnar hafi hingað til síður en svo gert of mikið úr hættunni.

„Kortin gerðu ekki ráð fyrir möguleikanum á fyrirvaralausu gosi líkt og því sem hófst á mánudagskvöld og enginn sá fyrir atburðina sem urðu í og við Grindavík þann 11. nóvember. Í raun er hægt að segja að óvissan sé nær algjör og ógjörningur sé að segja til um það hvað gerist næst. Þó er ljóst að Grindavík og nágrenni bæjarins er mikið hættusvæði.“

Sveinn segir að þrátt fyrir þetta hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum opnað fyrir umferð inn í Grindavík um Grindavíkurveg.

„Jafnframt hefur komið fram að viðbragðsaðilar verði til taks ef eitthvað fer úrskeiðis. Það þykir í lagi að fara veginn þar sem mjög mikil hætta er á skyndilegri gosopnun til þess að dvelja í bænum þar sem töluverð hætta er á eldgosi. Þau sem séð hafa myndband af upphafi gossins í Sundhnjúkagígum átta sig væntanlega á því hvað skyndileg gosopnun getur haft í för með sér. Gosið byrjaði líkt og sprenging og var orðið nokkuð stórt á örfáum sekúndum. Ef fólk hefði verið á gossvæðinu við upphaf gossins þá hefði ekki verið spurt að leikslokum,“ segir hann.

Nú er staðan önnur

Sveinn kveðst sjálfur hafa tekið þátt í aðgerðunum í Grindavík og aðstoðaði hann meðal annars fólk við að sækja verðmætustu eigur sínar og var til taks í bænum þegar ástandið var metið þannig að slíkt væri nauðsynlegt.

„Það var sjálfsagt og vel haldið utan um það hversu margir mættu vera í bænum á hverjum tíma auk þess sem litlar líkur voru taldar á fyrirvaralausu gosi í Grindavík.“

Sveinn segir að staðan núna sé aftur á móti önnur. Fólk eigi að vera búið að sækja helstu verðmæti og gæludýr í bæinn og hættan sé talin meiri en áður.

„Það ætti enginn að vera í Grindavík. Þrátt fyrir það er bærinn opnaður og viðbragðsaðilum gert að vera á hættusvæði ef eitthvað færi úrskeiðis. Hvers eiga hinir svokölluðu viðbragðsaðilar að gjalda,“ spyr Sveinn sem varpar nokkrum spurningum fram.

„Er eðlilegt að krefjast þess að lögregluþjónar leggi líf sitt í hættu svo veitingastaðir geti verið opnir í Grindavík? Er boðlegt að fjölskyldur slökkviliðsmanna þurfi að hafa áhyggjur af þeim til þess að fjölmiðlafólk geti tekið myndir af nýjustu sprungunum í bænum. Ég skil vel að fólk vilji vera heima sér, en er forsvaranlegt að biðja björgunarsveitafólk um að dvelja allan daginn á hættusvæði svo fólk geti vitjað húsa sinna.“

Fólk verði á eigin ábyrgð

Sveinn kveðst vera þeirrar skoðunar að það orki tvímælis að heimila rekstur fyrirtækja á svæðinu og með því sé verið að leggja starfsfólk í óþarfa hættu.

„Það er vel hægt að vinna fisk annars staðar en í Grindavík. Nóg er af veitingastöðum og börum utan hættusvæða. Við eigum ekki að láta græðgissjónarmið stjórna aðgerðum á þann hátt að líf fólks sé í hættu.“

Sveinn segir að ef opið eigi að vera í Grindavík verði að gera fólki ljóst að það fari þangað á eigin ábyrgð og því verði ekki bjargað ef allt fer á versta veg.

„Ekki er hægt að gera kröfu á viðbragðsaðila að leggja líf sitt í hættu til að bjarga þeim sem vísvitandi fara inn á hættusvæði. Jafnframt ætti að banna fyrirtækjarekstur í bænum þar sem ekki er forsvaranlegt að ætlast til þess að starfsfólk þurfi að dvelja á hættusvæði til að sinna vinnu.“

Ljóst er að skoðanir á þessu eru skiptar en Vísir greindi frá því í gærkvöldi að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefði tekið að sér mál nokkurra Grindvíkinga sem hyggja á málshöfðun á hendur ríkinu vegna lokana í Grindavík. Segist Jón telja að stjórnvöldum sé ekki heimild að banna Grindvíkingum að fara til sinna heima enda hafi þeir þurft að búa við strangar takmarkanir um hvort og hvenær þeir mega vera í bænum frá því í nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“