fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Góðar fréttir úr Hæstarétti fyrir Hugin

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. desember 2023 12:30

Mynd af húsi Hæstaréttar: Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur kvað í gær upp dóm sem varðar meiðyrðamál Hugins Þórs Grétarssonar útgefanda gegn Maríu Lilju Þrastardóttur Kemp. Huginn sakaði Maríu meðal annars um að kalla hann ofbeldismann. Huginn var sinn eigin lögmaður en Landsréttur vísaði málinu frá vegna vanreifunar og ónægra málsgagna. Hæstiréttur sneri hins vegar dómnum við í gær og fyrirskipaði Landsrétti að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Sjá einnig: Huginn Þór stefnir Maríu Lilju fyrir þriggja ára og hálfs árs gömul ummæli – „Way to proof a point hálfvitar“

Í dómi Hæstaréttar segir að sóknaraðili, sem er Huginn, hafi höfðað málið upphaflega til ómerkingar ummælum Maríu, greiðslu miskabóta og greiðslu til að kosta birtingu forsendna og dóms á tveimur vefmiðlum.

Huginn tapaði í héraðsdómi og áfrýjaði málinu til Landsréttar. Þar fór hann sjálfur með málið. Í dómnum segir að Landsréttur hafi vísað málinu frá. Hafi sú niðurstaða verið reist meðal annars á þeim grunni að  greinargerð Hugins til Landsréttar stríddi gegn meginreglu einkamálaréttarfars um munnlegan málflutning. Einnig væri málatilbúnaður Hugins til þess fallinn að koma niður á vörnum í málinu og væri í andstöðu við meginregluna um skýran og ljósan málatilbúnað. Enn fremur væri frágangur málsgagna Hugins að verulegu leyti í ósamræmi við reglur Landsréttar um málsgögn í einkamálum.

Hæstiréttur fellst á það með Landsrétti að greinargerð Hugins fyrir réttinum hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum laga að vera svo skýr að ekki fari á milli mála á hverju viðkomandi áfrýjun sé byggð. Í dómnum segir hins vegar að líta verði til þess að ummælin sem málið varðar komi fram í kröfugerð Hugins fyrir Landsrétti ásamt tilgreiningu á því hvar og hvenær þau voru viðhöfð. Bregðast hafi mátt við þessum annmörkum með því að beina því til Hugins að afhenda stutt yfirlit um málsástæður sínar og tilvísanir til réttarreglna. Hafa verði í huga að Huginn sé ólöglærður og hafi sjálfur flutt mál sitt fyrir Landsrétti og verði því að gera vægari kröfur til hans en ef lögmaður hefði gætt hagsmuna hans.

Lögmaður Maríu kom Hugin ekki til hjálpar

Hæstiréttur fellst einnig á það með Landsrétti að frágangur málsgagna Hugins hafi í ýmsum atriðum verið í ósamræmi við reglur réttarins. Í málsgögnunum hafi þó verið að finna stefnu til héraðsdóms, greinargerð lögmanns Maríu í héraði auk nokkurra skjala sem þar voru lögð fram og Huginn taldi hafa þýðingu. Jafnframt liggi fyrir að Huginn hafi í samræmi við reglur Landsréttar sent lögmanni Maríu tölvupóst 4. október 2022 og óskað eftir upplýsingum frá honum um hvaða gögn hann teldi eiga erindi inn í málið en tölvupóstinum hafi ekki verið svarað. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi lögmaður Maríu ekki lagt fram önnur gögn en greinargerð, en það hefði honum verið í lófa lagið að leggja fram fleiri gögn ef hann hafi talið gagnaframlagningu Hugins áfátt.

Í málsgögnum Hugins hafi ekki verið að finna efnisskrá í samræmi við reglur Landsréttar. Þar hafi hins vegar verið efnisyfirlit og skrá yfir ný gögn sem Huginn lagði fyrir Landsrétt. Einnig hafi vantað skrá með tilgreiningu á meginatriðum málsatvika í tímaröð og hlutlæga greiningu málsins með lýsingu á ágreiningsefnum fyrir Landsrétti. Það komi hins vegar ekki að sök þegar haft sé í huga að hvoru tveggja verði ráðið beint af kröfugerð Hugins. Þá hafi Huginn lagt fram endurrit af framburði aðila og vitna, áður en málið var flutt í Landsrétti, um formhlið málsins.

Hæstiréttur segir engu breyta þótt ekki hafi komið fram í málsgögnum Hugins skrá yfir nöfn þeirra sem komu fyrir héraðsdóm.

Það er því niðurstaða Hæstaréttar að ekki hafi verið nægilegur grundvöllur til að vísa málinu frá Landsrétti þrátt fyrir þá annmarka sem voru á málatilbúnaði Hugins. Úrskurður Landsréttar er því felldur úr gildi og honum fyrirskipað að taka málið til efnislegrar meðferðar.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk
Fréttir
Í gær

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu