Edda flaug frá Noregi til Íslands í mars 2022 með þrjá syni sína en hún hefur átt í harðri forræðisdeilu við barnsföður sinn.
Morgunblaðið greindi frá því í gærkvöldi að saksóknari hefði farið fram á 17 mánaða dóm yfir Eddu, en blaðamaður þess sat aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien.
„Ákærða vissi að hún væri að brjóta af sér þegar hún náði í börnin, það hefur hún viðurkennt, og hún hefur enn fremur gerst sek um alvarlega vanrækslu barnanna,“ hefur Morgunblaðið eftir Lise Dalhaug saksóknara þegar hún hélt lokaræðu sína í gær.
Þá sagði Lise að ekki væri erfitt að gera sér í hugarlund hversu þungbært málið hefði verið föður drengjanna sem hefði enga hugmynd um hvar þeir væru niðurkomnir.
„[Ákærða] segir að allt gangi svo vel á Íslandi og börnunum gangi vel í skólanum. Hún dregur upp glansmynd sem stenst ekki,“ sagði saksóknari samkvæmt frétt Morgunblaðsins.