Allir þrír synir Eddu Bjarkar Arnardóttur eru fundnir og eru nú á leið ásamt föður sínum til Noregs. Þetta kemur fram í frétt Nútímans.
Fyrr í dag var greint frá því að tveir drengjanna hefðu fundist í Garðabæ í fylgd systur Eddu og var hún handtekin og lögmaður Eddu hefur einnig verið handtekinn.
Í frétt Nútímans kemur fram að drengirnir þrír séu á leið út á Keflavíkurflugvöll þar sem faðir þeirra bíði eftir þeim og að þaðan verði flogið til Noregs innan tíðar.
Nútíminn segir einnig að samkvæmt heimildum miðilsins hafi lögmaður og systir Eddu ítrekað logið að lögreglunni á meðan hún leitaði drengjanna.
Í frétt Nútímans kemur einnig fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komi til með að aka með drengina í forgangsakstri á Reykjanesbraut upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeir munu hitta föður sinn í fyrsta skipti í tæplega tvö ár.