Birgir skrifar grein um málið í Morgunblaðið í dag þar sem hann er ómyrkur í máli.
„Forgangsröðun í þjónustu heilbrigðiskerfis okkar er þannig háttað að þeir sem eiga meiri möguleika á að skila einhverju til baka til þjóðarbúsins ganga fyrir þeim sem eiga minni möguleika á að skila verðmætum til baka. Hér skiptir engu hver forsaga verðmætasköpunar er hjá viðkomandi, bara hvers er að vænta,“ segir hann í upphafi greinar sinnar.
Hann segir að vissulega megi hafa samúð með því starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem hefur það hlutverk að breiða yfir þennan fíl í kerfinu. Stundum megi jafnvel brosa að þeim skýringum sem gefnar eru.
Birgir fer svo stuttlega yfir heilsufarssögu sína.
„Undirritaður var greindur með IPF-lungnasjúkdóm og fyrir einu ári tilkynnt að baráttan við sjúkdóminn væri töpuð. Vísað til líknarþjónustu í framhaldi og gefið eitt og hálft ár til að lifa. Er með kransæðasjúkdóm að auki, með tvær þræðingar að baki á þessu ári og nýlegt heilablóðfall sem orsakaði máttminnkun í vinstri útlimum. Heilsan sem sé ekki í toppformi.“
Birgir segir í grein sinni að eftir heilablóðfallið hafi hjartadeild LSH Grensásdeild LSH sent beiðni um endurhæfingu sem tekin var fyrir á Grensás á matsfundi í gær, 19. desember. Hann og eiginkona hans voru viðstödd og segir Birgir að beiðninni hafi verið hafnað.
„Á matsfundinum fór engin líkamleg skoðun fram, enginn tékkaði á hvað máttminnkunin væri mikil eða hvort hreyfigetan eða fínhreyfingar væru í lagi. Bara spjall og síðan niðurstaðan kynnt,“ segir Birgir og bætir við að forsendur hefðu meðal annars þær að Grensásdeildin hefði enga þekkingu til að sinna þeim sjúkdómi sem Birgir er haldinn.
„Ég hélt að endurhæfing væri þeirra sérgrein! Sundlaugin myndi ekki nýtast mér þar sem ég væri með sóríasis. Fyrir mig skiptir mestu máli að ná hreyfigetu og fínhreyfingum í lag sem fyrst til að njóta þess tíma sem ég á eftir. Það er aftur á móti rétt að ég þarf enga aðstoð við að liggja í rúminu.“
Birgir nefnir fleiri dæmi í grein sinni.
„Önnur dæmi um skrýtin svör og aðgerðir eru t.d. að á undan þessu hafði lífsnauðsynleg heimahjúkrun „gleymst“ þrjá daga í röð vegna innsláttarvillu í tölvu. Lífsnauðsynleg lyf gleymst vegna þess að það eru bara gefnir út einnota lyflseðlar þar sem viðkomandi er hvort sem er að deyja. Flensu- og covid-sprautur ekki farið fram án skýringa þrátt fyrir ítrekanir. Og þá má ekki gleyma augnsteinaskiptunum sem augndeildin á LSH lofaði í ágúst síðastliðnum en ég er u.þ.b að verða blindur á sjáandi auganu. Hitt augað missti ég í lyfjagjöf á LSH (hliðarverkun) þar sem líftæknilyfið InFlizeby var gefið í æð. Það er til orginal lyf fyrir sama tilgang með engum hliðarverkunum en það þótti of dýrt í mínu tilfelli þar sem lífsmöguleikar mínir eru skertir.“
Birgir endar grein sína á þessum orðum:
„Fíllinn í herberginu er sú staðreynd að ég er að deyja. Ég virðist fá alla hjálp sem möguleg er til að deyja en hjálp til að lifa stendur ekki til boða. Þetta finnst mér erfitt og sárt að lifa við. Ég vona að í framtíðinni höfum við efni á því sem þjóð að hjálpa fólki til að lifa, án tillits til aldurs eða stöðu, en látum almættið um hinn kostinn.“