„En ég hefði verið til í að vera kominn með garð fyrir ofan Grindavík,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.
Hann sagði gosið vera tíu til tuttugu sinnum kraftmeira en við upphaf gossins í Fagradalsfjalli 2021. Nú koma 100 til 200 rúmmetrar af kviku upp úr sprunginni á sekúndu hverri.
Hvað varðar útstreymi brennisteinsdíoxíðs þá er það tífalt meira á hverja tímaeiningu en í síðustu þremur gosum eða 30 til 60 þúsund tonn á sólarhring. Góðu fréttirnar hvað þetta varðar eru að sögn Þorvalds að vindáttir eru hagstæðar eins og er og blæs þessu að mestu út á haf.
Hraun flæðir nú í norður og austur frá sprungunni en Þorvaldur benti á að hraunið geti ekki runnið mjög langt til austurs því landið byrjar að hækka skammt frá sprungunni. Segir hann þá töluverðar líkur á að hraunrennslið sveigi í suður, í átt að Grindavík. Norðan við gossprunguna séu mikilvægir innviðir sem geti verið í hættu ef gosið stendur lengi.