Hann ræddi við fréttastofu RÚV um sex leytið og sagði að töluvert hefði dregið úr gosinu frá því sem mest var í kringum miðnætti.
„Það kemur nú ekki á óvart. En það er ennþá töluvert gos og hraunið mjög virkt,“ sagði Magnús sem sagði að á að giska væru komnir um 3-4 ferkílómetrar af hrauni.
„Til samanburðar er það kannski meira en tvöfalt meira en kom í öllu síðasta gosi í Litla-Hrúti og það á sjö klukkutímum. Þetta er töluvert gos og var mjög öflugt til að byrja með en svo er að draga ákveðið úr því.“
Sjá einnig: Ármann á von á því að gosið fjari út fyrir áramót – Ástæðan er þessi
Magnús segir að það segi okkur samt ekkert um hversu lengi gosið mun vara eða hversu stórt hraunið verður.
„Þetta getur klárast á viku, þetta getur verið töluvert lengra en það stefnir í að þetta verði mun hægara og minna hraunrennsli en var í upphafi. Enda er það eiginlega alltaf þannig með þannig gos sem byrja með krafti, það dregur úr þeim.“
Aðspurður hvort hraun geti runnið til dæmis að Reykjanesbrautinni segist Magnús ekki hafa miklar áhyggjur af því.
„Þetta er nú ekkert að stefna á Reykjanesbrautina en þetta gæti með tíð og tíma náð út á Grindavíkurveg. En þetta þarf að halda áfram í einhvern mjög langan tíma áður en Reykjanesbrautin fer að verða í hættu út af þessu. En það gæti verið hugsanlegt að þetta nálgist Grindavíkurveginn eftir einhverja daga.“