Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, segir að Grindvíkingar geti varpað öndinni léttar í bili. Þetta kom fram í viðtali hans á Rás 2 en þar kom fram að sprungan virðist vera að teygja sig norður og eins og staðan er núna þýðir það að hraunið rennur ekki ofan í Grindavíki.
Þá sé sprungan, sem er orðin 3,5 kílómetrar að stærð þegar þessi orð eru skrifuð, þegar orðin slitin og önnur sprunga hafi opnast aðeins norðar. Ármann telur gosið vera þrisvar til fjórum sinnum stærra en fyrri gos á Reykjanesinu en aðeins hálfdrættingur á við Holuhraun.
„Það gæti tórað í sjö til tíu daga, það er svona mín spá,“ segir Ármann og sleit svo viðtalinu til að koma sér á staðinn og meta stöðuna betur.