Umhverfis og framkvæmdaráð Múlaþings hefur ákveðið að færa bensínafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi. Algengt er að ferðamenn migi við núverandi stöð og íbúar hafa kvartað undan hlandlykt.
Bensínstöðin stendur nú við eina verslunarkjarna þorpsins, sem meðal annars hýsir útibú Landsbankans, ÁTVR og Íslandspósts. Ekkert almenningssalerni er á staðnum og því hafa ferðamenn látið gossa úti við bensínstöðina sjálfa.
Í frétt Vísis um málið frá því í maí síðastliðnum kom fram að ekki dugði að setja upp vefmyndavélar. Ferðamenn gerðu þarfir sínar þrátt fyrir að verið væri að fylgjast með þeim.
Þá var enginn vilji hjá fyrirtækjunum í klasanum eða N1 að sameinast um rekstur almenningssalernis þrátt fyrir beiðnir sveitarfélagsins um það.
Ákveðið var því að færa stöðina á sama tíma og verið er að gera nýtt aðalskipulag fyrir Djúpavog.
„Í samræmi við niðurstöðu nýlegra funda með N1. ehf. verður gert ráð fyrir lóð undir bensínafgreiðslu fyrirtækisins nærri gatnamótum Hringvegar og Djúpavogsvegar,“ segir í bókun umhverfis og framkvæmdaráðs frá því í gær.