Stór hluti íbúa Skorradalshrepps er uggandi yfir þeirri stefnu sem sameiningarviðræður við Borgarbyggð eru að taka. 22 íbúar hafa óskað eftir sérstökum íbúafundi með sveitarstjórn vegna málsins.
Skorradalshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag landsins og taldi aðeins 62 sálir í sumar. 22 er því rúmur þriðjungur allra íbúa og vitaskuld hærra hlutfall af lögráða íbúum.
„Undirrituð, íbúar í Skorradalshreppi, óska eftir að fram fari íbúafundur sem allra fyrst, þar sem okkur gefist tækifæri til að taka þátt í umræðu og leggja fram fyrirspurnir og tillögur um mögulega sameiningu hreppsins við önnur sveitarfélög,“ segir í bréfi íbúanna til hreppsstjórnar.
Er vísað í sveitarstjórnarlög því til stuðnings. Það er ákvæði um frumkvæði íbúa sveitarfélags.
Þann 18. október síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Skorradalshrepps að óska eftir óformlegum viðræðum við Borgarbyggð um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. En Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur þrýst mjög á smærri sveitarfélög landsins að sameinast og skipað þeim að skrifa skýrslu um hvernig gangi í sameiningarmálum.
Sveitarstjórn Skorradalshrepps var ekki einhuga um málið heldur var það samþykkt af þremur af fimm fulltrúum.
Málið hefur hins vegar þróast nokkuð hratt. Þann 29. október birti staðarmiðillinn Skessuhorn frétt um að undirbúningur formlegra viðræðna væri að hefjast.
Þann 7. desember lagði byggðarráð Borgarbyggðar fram tillögu um að gengið verði til samninga við KPMG um verkefnastjórn vegna viðræðnanna sem var samþykkt samhljóða.
KPMG skilaði áætlun um viðræðurnar þann 1. desember. Kemur þar fram að óformlegar sameiningarviðræður taki um 4 til 6 mánuði þar sem metnir verða kostir og ókostir og valkostagreining gerð með fleirum en einum kosti.
Næsta skref eru allt að 12 mánaða formlegar sameiningarviðræður sem endar tillögu og kosningum íbúa um tillöguna. Gangi allt eftir yrðu sameiningarkosningar í mars eða apríl árið 2025 og verði sameining samþykkt tæki hún gildi við sveitarstjórnarkosningarnar 2026.
Útreiknað framlag til sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði vegna sameiningarmála eru 484 milljónir króna, 372 til Borgarbyggðar og 112 til Skorradalshrepps.
KPMG mun stýra fundum og vinnustofum og reiknað er með að fyrirtækið fái um 7 til 7,5 milljónir króna í sinn hlut nema að umfang verksins vaxi. Þá verður samið um frekari greiðslur.
Andstaða við sameiningu hefur verið mikil í Skorradalshrepp í gegnum tíðina. Árið 2005 var hreppurinn sá eini af fimm sveitarfélögum sem hafnaði að sameinast Borgarbyggð. 28 íbúar sögðu nei við sameiningu en 17 sögðu já.
Árið 2014 lét hreppsnefnd gera könnun sameiningarviðræður við annað hvort Borgarbyggð eða Hvalfjarðarsveit, sem liggur sunnan við hreppinn. 15 vildu sameinast Borgarbyggð, 1 Hvalfjarðarsveit en 23 vildu að Skorradalshreppur yrði áfram sjálfstætt sveitarfélag, sem varð raunin.
Í bréfi íbúanna 22 er vísað til tilkynningar á vef Skorradalshrepps frá 22. október. En þá hafði Jón Eiríkur Einarsson, oddviti, sagt að viðræðurnar væru óformlegar.
„Það sem í þessu felst er að við munum ræða við fulltrúa Borgarbyggðar hvort þau hafi einhvern áhuga yfir höfuð á að við byrjum að skoða sameiningu,“ sagði í tilkynningunni. „Ef svo er þá munum við byrja á að halda góðan fund með íbúum og kanna málin og ræða saman um framvindu málanna. Gott samtal við íbúa er grunnurinn að góðri sameiningu. Með öðrum orðum þá munum við fylgja því ferli sem innviðarráðuneytið gefur út í sambandi við þessi mál í einu og öllu og vanda til verka.“
Íbúarnir benda hins vegar á að ef fylgja eigi ferli ráðuneytisins þá er gert ráð fyrir íbúafundi eftir að tillögur verkefnisstjórnar liggja fyrir.
„Við teljum mikilvægt að „halda góðan fund með íbúum“ áður en formlega ferlið fer af stað, til að ræða „um framvindu málanna“ þ.e. áður en KPMG er falið að sjá um allt ferlið, eins og Byggðarráð Borgarbyggðar leggur til að gert verði, sbr. fundargerð þess 7. des. sl.“ segir í bréfinu.
Málið verður tekið fyrir á auka hreppsnefndarfundi sem haldinn er í dag, 18. desember, klukkan 18:00.