Í grein sem Björn skrifaði á Vísi í morgun segir hann að Rapyd sé ísraelskt stórfyrirtæki sem við höfum fulla ástæðu til að sniðganga vegna atburðanna á Gaza.
„Rapyd rekur starfsemi í landránsbyggðum Ísraela á Vesturbakkanum sem eru skýlaust brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna ætti ekkert sómakært fyrirtæki eða stofnun að skipta við Rapyd frekar en rússneskt fyrirtæki sem er með starfsemi í landránsbyggðum Rússa í austanverðri Úkraínu,“ segir Björn.
Þá vísar hann í ummæli forstjóra og eiganda Rapyd, sem Vísir fjallaði meðal annars um fyrir skemmstu, en þar lýsti hann afdráttarlausum stuðningi við Ísrael og kallaði eftir því að öllum Hamas-liðum yrði eytt.
„Þessi ummæli hafa gengið fram af mörgum okkar því mikill meirihluti Íslendinga er á móti morðum á saklausu fólki á Gaza og Vesturbakkanum. Það er því mjög ónærgætið af þeim sem stýra fjármálum fyrirtækja og stofnana að bjóða okkur upp á að þurfa að skipta við Rapyd. Ég segi fyrir mig að mér verður hálf illt í hvert skipti sem ég þarf að borga í posa með merki Rapyd og reyni að forðast það eins og ég get,“ segir Björn í grein sinni.
Björn hvetur fyrirtæki til að hætta viðskiptum við Rapyd og bendir á að sum hafi þegar gert það.
„Af bönkunum er Arion sá eini sem notar Rapyd en í smásölu skipta bæði Hagar og Samkaup við Rapyd. Þau reka t.d. Bónus, Hagkaup, Nettó, Kjörbúðina og Krambúðina. Festi sem rekur Krónuna, Elkó og N1 hætti hinsvegar viðskiptum við Rapyd í haust. Í byggingarvörum skipta bæði Húsasmiðjan og Bykó við Rapyd en Bauhaus og Slippfélagið ekki.“
Bendir hann á að á síðunni hirdir.is sé safnað upplýsingum um fyrirtæki sem skipta við Rapyd og þangað sé hægt að senda inn upplýsingar.
„Það er ekki flókin aðgerð fyrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana að skipta yfir í aðra greiðslumiðlun,“ segir hann og hvetur fólk til að láta í sér heyra ef það vill ekki borga í gegnum Rapyd.