Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar lét gera könnun um hvort seinka ætti skóladeginum hjá unglingastigi til reynslu. Flestir vilja að skóladagurinn hefjist klukkan 8:40.
Reykjavíkurborg hefur þegar ákveðið að seinka skóladeginum og mun hann hefjast klukkan 8:50 í fyrsta lagi. Sú breyting tekur gildi á næsta skólaári.
Könnunin var lögð fyrir nemendur, foreldra og kennara við Grunnskólann á Ísafirði í október síðastliðnum. Niðurstöðurnar voru lagðar fyrir fræðsluráð á fundi á fimmtudag.
Þegar fólk var spurt hvort það vildi seinka skóladeginum til prufu næsta vetur skiptist svarendahópurinn næstum því í tvennt. 45,5 prósent vildu seinka skóladeginum en 42 prósent vildu það ekki. 12,5 prósent svöruðu á þá leið að þeim væri alveg sama.
200 manns svöruðu spurningunni. 48,5 prósent þeirra voru foreldrar, 47,5 prósent nemendur og 4 prósent kennarar.
Einnig voru þeir 112 sem svöruðu já spurðir hvenær þeir vildu að skólinn myndi hefjast. Langflestir, eða 87,5 prósent, vildu að skólinn byrjaði klukkan 8:40 en 12,5 prósent að hann byrjaði 9:40.