Á vef Alþingis hefur verið birt svar Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur þingmanns Viðreisnar um biðlista eftir afplánun í fangelsi og fangelsisrými. Í svarinu kemur fram að alls séu á þriðja hundrað manns á biðlistanum og að karlar séu í yfirgnæfandi meirihluta.
Í svarinu kemur fram að á listanum séu 238 karlar og 24 konur.
Meðal biðtími eftir plássi í afplánun er rúmlega eitt ár og 10 mánuðir. Tekið er þó fram að erfitt sé að tilgreina raunverulegan meðal biðtíma þar sem sá tími sem líði frá því að dómþoli er boðaður til afplánunar þar til afplánun hefst sé alls ekki alltaf eiginlegur biðtími.
Í svarinu segir að þau sem dæmd eru í allt að tveggja ára fangelsi geti sótt um að fá að afplána dóminn með samfélagsþjónustu. Flestir sem dæmdir séu sendi inn umsókn um samfélagsþjónustu. Uppfylli umsækjandi skilyrði sé honum tilkynnt um það, síðan sé vinnustaður fundinn og viðkomandi hefji afplánun í samfélagsþjónustu. Í sumum tilvikum sé viðkomandi með ólokið mál sem sé við það að ljúka og sé þá beðið eftir að sá dómur berist til að hægt sé að fullnusta hann.
Ef umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um samfélagsþjónustu sé honum synjað og boðaður til afplánunar í fangelsi. Dómþolar sæki gjarnan um frest á afplánun og sé það heimilt að veita hann í tiltekinn tíma. Þá sæki dómþolar oft um endurupptöku á ákvörðun um synjun.
Rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu sé honum gefinn kostur á að andmæla og stundum séu andmælin tekin til greina. Ef ekki taki Fangelsismálastofnun ákvörðun um að afturkalla heimild til að gegna samfélagsþjónustu og viðkomandi sé boðaður til afplánunar. Í slíkum tilfellum geti viðkomandi aftur sótt um frest og sé hann veittur uppfylli dómþoli skilyrði þar um. Þá kæri dómþolar oft ákvarðanir Fangelsismálastofnunar til dómsmálaráðuneytisins sem taki tíma.
Þar af leiðandi sé mjög erfitt að tala um biðtíma þar sem ferlið geti verið mjög tímafrekt og töluverður tími geti liðið þar til dómþolar hefji afplánun.
Þorbjörg spurði ráðherrann til hvaða aðgerða yrði gripið til að stytta biðlistann. Guðrún svaraði því til að dómsmálaráðuneytið hafi gripið til margvíslegra aðgerða til að stytta boðunarlista, m.a. í samræmi við skýrslu um tillögur til styttingar boðunarlista frá árinu 2020. Þá hafi auknum fjármunum verið veitt til fangelsismála, m.a. til þess að geta fullnýtt þau pláss sem séu þegar til staðar í fangelsum en í svarinu kemur einnig fram að hámarksnýting á fangelsisrýmum á árunum 2018-2022 hafi verið 88,1 prósent.
Guðrún segir það sitt mat að grípa þurfi til frekari aðgerða en jafnframt þurfi að taka til skoðunar hvort fjölga þurfi fangarýmum. Í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan sé í fangelsismálum verði þetta tekið til ítarlegrar skoðunar. Meðal þess sem verði skoðað sé hvort hægt sé að auka fullnustu refsinga utan fangelsa enn frekar en gert sé í dag. Einnig þurfi að greina stöðuna í húsnæðismálum nánar, m.a. með tilliti til þess að íbúum hér á landi hafi fjölgað auk þess sem refsingar hafi verið að þyngjast síðustu ár.