Héraðssaksóknari hefur ákært Dagbjörtu Rúnarsdóttur, 42 ára gamla konu, fyrir manndráp. Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, í samtali við DV, en ákæra verður ekki birt fjölmiðlum strax þar sem eftir er að birta hana sakborningi.
Dagbjört er sökuð um að hafa orðið 58 ára gömlum sambýlismanni sínum að bana að heimili þeirra í Bátavogi, laugardagskvöldið 21. september.
Dagbjört hefur jafnframt verið úrskurðuð í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald en núverandi gæsluvarðhaldsúrskurður yfir henni rennur út á sunnudag.
Arnþrúður var ekki tilbúin að upplýsa frekar um efni ákærunnar þar sem hún hefur ekki verið birt sakborningi.
Dagbjört hefur áður hlotið refsidóma, sem og hinn látni, aðallega fyrir fíkniefnamisferli, en ekki fyrir ofbeldi.