Sigurður Kristinn Árnason hefur verið dæmdur fyrir meiriháttar skattalagabrot í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þarf hann að greiða 196.734.500 krónur í sekt til ríkissjóðs. Þar að auki var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi þar af 9 skilorðsbundna. Greiði Sigurður ekki sektina innan fjögurra vikna mun hann þurfa að sæta fangelsi í tólf mánuði. Annar maður var ákærður ásamt Sigurði en málinu gegn honum var vísað frá dómi.
Sigurður er nú búsettur í Ungverjalandi. Hann var ákærður fyrir að hafa vanframtalið eigin tekjur á skattframtölum 2017 til 2019 en vangreiddur tekjuskattur og útsvar var sagður nema tæplega 28 milljónum króna samkvæmt ákærunni. Hann var einnig ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum í rekstri einkahlutafélagsins BC1.
Sigurður var ákærður, sem framkvæmdastjóri félagsins, prókúruhafi og um tíma stjórnarformaður, fyrir vangreiddan virðisaukaskatt fyrir árið 2020 upp á tæplega 55 milljónir króna. Sigurður var einnig sakaður um að hafa ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda fyrir árið 2020 upp á um 24 milljónir króna.
Hann var einnig ákærður fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins ZF1 ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á tæpar 34 milljónir króna og ekki heldur opinberum gjöldum fyrir rúmar 12 milljónir króna, fyrir árið 2020.
Sigurður var í sömu hlutverkum hjá einkahlutafélaginu BC innviðir en þar er hann ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir tæpar 15 milljónir króna og ekki á opinberum gjöldum fyrir rúmar 12 milljónir, vegna alls 8 mánaða árin 2020-2021.
Sigurður krafðist sýknu eða vægustu refsingar sem lög heimila. Í dómnum kemur fram að Sigurður var með ýmsar skýringar sér til varnar en Héraðsdómur féllst ekki á neinar þeirra og sakfelldi hann. Héraðsdómur varð þó við þeirri kröfu Sigurðar að dæma hann ekki í atvinnurekstrarbann eins og Héraðssaksóknari fór fram á.
Hvað hinn manninn, sem var ákærður fyrir skattalagabrot í tengslum við rekstur BC innviða, varðar er það niðurstaða Héraðsdóms að óhjákvæmilegt sé að vísa frá dómi sakargiftum á hendur honum. Að mati dómsins bar héraðssaksóknara að endursenda málið gegn honum til skattrannsóknarstjóra til meðferðar þar í ljósi þess að sakargiftir gegn ákærða samræmist ekki fyrirmælum ríkissaksóknara.
Eins og áður segir var Sigurður dæmdur til að greiða 196,7 milljónir króna sekt og sitja í fangelsi í 5 mánuði og sæta 9 mánaða skilorði til viðbótar. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna bætist 1 árs fangelsisdómur við.
Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér.