„Ég er bara að fara yfir málið og býst við að ákvörðun liggi fyrir einhvern tíma á morgun, þá varðandi það hvort búið verður að gefa út ákæru í málinu og hvort farið verður fram á gæsluvarðhald,“ segir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Rannsókn lögreglu á láti 58 ára gamals manns í Bátavogi er nú lokið og málið komið til héraðssaksóknara. 42 ára gömul kona situr í gæsluvarðhaldi grunuð um að hafa myrt manninn. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir konunni rennur út 17. desember, sem er á sunnudag. Þá verður konan búin að sitja 12 vikur í gæsluvarðhaldi. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er ekki hægt að halda henni lengur í gæsluvarðhaldi án þess að gefa út ákæru.
Arnþrúður segir að ákæra verði mögulega gefin út síðdegis á morgun. „Við höfum vissulega tíma fram á sunnudag ef þess þarf,“ segir Arnþrúður.
Miðað við þessi orð má ætla að ákæra í málinu sé líkleg en Arnþrúður vill þó ekkert segja um það. „Ég held það sé best að ég segi bara sem allra minnst nákvæmlega núna.“
Ákvörðun um ákæru og kröfur um áframhaldandi gæsluvarðhald gæti legið fyrir síðdegis á morgun.