fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Vildu gera rafskútu upptæka eftir árekstur – „Upptaka ökutækis er afar íþyngjandi úrræði“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 13. desember 2023 12:30

Áreksturinn átti sér stað nálægt Kaplakrika í Hafnarfirði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ökumaður rafskútu, sem keyrði á miklum hraða framan á bíl, var dæmdur til sektargreiðslu í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. desember. Dómari hafnaði kröfu um að gera rafskútu hans upptæka.

Maðurinn var ákærður í júní síðastliðnum fyrir að hafa keyrt rafskútu sinni á bíl í Hafnarfirði þann 5. ágúst árið 2021. Hraðamælingar sýndu að rafskútan gat komist svo hratt að hún væri skráningarskylt bifhjól, en var hins vegar ekki skráð sem slík.

Lögregla fékk tilkynningu um umferðaróhapp við Flatahraun síðla þennan dag, nálægt Kaplakrika, heimili íþróttafélagsins FH. Ökumaður sagðist hafa keyrt bíl sínum norður Flatahraun og beygt inn á bílastæði við hús númer 25. Þá hafi komið maður á rafskútu eftir gangstéttinni á miklum hraða. Hann hafi snarhemlað og lent á vélarhlíf bílsins, sem var þá næstum alveg stopp.

Ökumaður rafskútunnar sagði að bílstjórinn hefði ekið í veg fyrir sig og því hafi hann þurft að snarhemla. Hann sagðist hafa verið á 25 kílómetra hraða á klukkustund. Rafskútan kæmist ekkert hraðar en það.

Vitni sem var statt á bensínstöð Atlantsolíu við Kaplakrika sagði hins vegar að rafskútan hefði verið á ofsahraða, sennilega í kringum 50 kílómetrum á klukkustund.

Komst mjög hratt

Lögreglan lét kanna hversu hratt hjólið kæmist. Meðal annars með mælingum úr upptöku eftirlitsmyndavélar sem náði mynd af atvikinu. Sú mæling sýndi rúmlega 40 kílómetra á klukkustundar hraða.

Einnig var bifvélavirki fenginn til að komast að því hvað rafskútan, sem er að gerðinni Kaabo Wolf Warrior 11, kæmist hratt. Mældi hann allt að 63 kílómetra hraða á klukkustund en á vef framleiðanda segir að rafskútan komist upp í 80.

Ökumaður rafskútunnar vildi ekki tjá sig í skýrslutöku lögreglunnar í september árið 2022 en fyrir dómi sagðist hann aðallega hafa verið að hugsa um að halda jafnvægi á skútunni. Þegar hann hafi rétt litið á mælaborðið hafi hann séð hraðann 23 kílómetra á klukkustund.

Sagði hann að kærasta sín hefði verið nýbúin að kaupa hjólið og hann hefði verið að prófa það í fyrsta sinn.

Lögfræðikostnaðurinn sjöfalt hærri en sektin

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að rafskútan væri skráningarskylt bifhjól í ljósi þess hversu hratt það kemst. Óheimilt er að keyra slíku hjóli á gangstétt eins og gert var í þessu tilfelli og ökumaður rafskútunnar því brotlegur.

Var hann dæmdur til að greiða 80 þúsund krónur í sekt ella sæta 6 daga fangelsi. Einnig að greiða málsvarnarlaun skipaðs lögmanns síns, rúmlega 600 þúsund krónur, eða rúmlega sjöfalt hærri upphæð en sektin hljóðaði upp á.

Rafskútan ekki gerð upptæk

Lögreglustjóri sem gaf út ákæruna gerði einnig kröfu um að rafskútan yrði gerð upptæk. Hún hefði verið notuð til þess að fremja refsiverðan verknað og hætta væri á að henni yrði ekið áfram án heimildar. Á þetta féllst dómari hins vegar ekki.

„Fáheyrt er að ökutæki séu með dómi gerð upptæk vegna brota á umferðarlögum,“ segir í dóminum. Það sé einungis gert þegar um sé að ræða stórfelld og ítrekuð brot. „Upptaka ökutækis er afar íþyngjandi úrræði sem túlka ber þröngt og ber þar einkum að horfa til þeirrar háttsemi sem sakfellt er vegna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg