Hanna Birna hefur undanfarin ár gegnt starfi ráðgjafa á aðalskrifstofu UN Women í New York og var hún með annan fótinn þar og hinn á Íslandi til að byrja með.
Í viðtalinu, sem fjallað er um á vef RÚV, kom Hanna Birna inn á það að henni hafi liðið einkar vel í New York til að byrja með.
„Ég varð aftur 25 ára í New York; labbaði sjúklega hratt með kaffibollann og kunni allt,“ sagði hún meðal annars og bætti við að hún elski Ísland en þarna hafi hún átt kost á að komast eitthvert þar sem hún þekkti engan.
Eitthvað virðist þó hafa breyst þegar heimsfaraldurinn skall á og segir Hanna Birna að borgin hafi breyst mikið. Sá hún hluta af samfélaginu sem heilluðu hana engan veginn.
„Ég var hálfklökk að labba í vinnuna á morgnana. Fólk var á götuhornum í geðhvörfum, fólk sem átti erfitt peninga- og andlega,“ sagði hún og bætti við að oftar en ekki væru einstaklingar með ekkert bakland og í jaðarhópum fyrstir til að vera ýtt út á brúnina þegar kerfið brestur.
„Svo labba allir fram hjá eins og þetta sé í lagi og hluti af samfélaginu. Það er ekkert í mér sem segir að það sé hluti af samfélaginu að horfa upp á svona,“ sagði Hanna Birna sem vildi ekki vera lengur í þessari stórborg. „Mér fannst hún sár og erfið og mig langaði ekki að vera þar,“ sagði hún í Mannlega þættinum.
Úr varð að Hanna Birna flutti til Íslands þar sem hún er enn í sama starfi.