Greint var frá því í gær að heildarlaun flugumferðarstjóra á síðasta ári, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, hafi numið 1.584 þúsund krónum að meðaltali á mánuði. Er þá átt við laun fyrir umsaminn dagvinnutíma og vaktavinnu og yfirvinnu.
Morgunblaðið hefur eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að á meðan viðræður eru í gangi sé von. „Það ber enn talsvert á milli,“ segir hún.
Hvorki hún né Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, vildu staðfesta kröfu um 25% launahækkun.
Vinnustöðvun flugumferðarstjóra í gærmorgun hafði áhrif á ferðaáætlanir þúsunda farþega. Önnur vinnustöðvun hefur verið boðuð í fyrramálið og segir Morgunblaðið að hún muni hafa áhrif á um 8.300 farþega Icelandair og um 20 flugferðir Play.