Fyrrverandi úkraínskur þingmaður, Ilya Kyva, var myrtur í Moskvu í síðustu viku af úkraínskum útsendurum. Daily Mail greinir frá því að úkraínska leyniþjónustan, SBU, hafi lekið hrottalegum myndum af líki hans auk myndar af vopnunum, sem voru notuð til að ráða hann af dögum, hangandi í tré.
Þá var einnig lekið myndbandi þar sem flugumaðurinn Úkraínumanna sést undirbúa morðið.
Tilgangurinn með lekanum er sagður vera sá að senda öðrum Úkraínumönnum, sem svikið hafi lit og gengið til liðs við Rússa, skilaboð um hvað biði þeirra. Ekki síst til þeirra sem að flutt hafa til Rússlands og telja sig óhulta þar.
„Þetta eru skilaboð til allra svikara og stríðsglæpamanna sem hafa gengið til liðs við Rússa. Munið að Rússar munu ekki vernda ykkur. Dauðinn er það eina sem bíður óvinum Úkraínu,“ er haft eftir ónafngreindum aðila í frétt miðilsins.
Kyva var leiðtogi flokks sósíalista og sat á þingi árin 2017-2019. Hann var meðal þeirra sem bauð sig fram til forseta árið 2019 en varð að lúta í lægra haldi fyrir Volodymyr Zelensky og í kjölfarið snerist hann á sveif með Rússum. Sótti hann um pólitískt hæli í Rússalandi og fékk þarlent vegabréf.
Kyva var harðorður í garð Zelensky og sagði hann vera handbendi Breta auk þess sem hann væri kókaínfíkill.
Þingmaðurinn fyrrverandi hafði nýlega verið dæmdur í 14 ára fangelsi í Úkraínu fyrir föðurlandssvik.