Morgunblaðið greinir frá því í dag að meiri öryggisgæsla verði þannig viðhöfð á samkomu til minningar um helförina en til stóð. Morgunblaðið ræddi við fulltrúa erlends ríkis sem sagði að hætt hefði verið við að hafa opið á minningarstund um helförina því ekki væri lengur á það hættandi.
Þá ræddi Morgunblaðið við fulltrúa annars erlends ríkis sem sagði það koma mjög á óvart að mótmælendur gætu tekið yfir fundi í Háskóla Íslands líkt og þeir gerðu á föstudag.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sagði við mbl.is á föstudag að mótmælendur í Veröld hefðu gengið of langt. Benti hann á að hingað til hefði ekki verið talin þörf á mikilli gæslu í kringum ráðamenn.
„Þetta er bara í skoðun eftir þá atburðarás sem við sáum þarna. Þetta er náttúrulega engan veginn viðeigandi,“ sagði Karl Steinar.