fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Grindvíkingar þurfa ekki að greiða bænum 15 prósent bóta flytji þeir burt – „Þetta á ekki við í þessum atburði“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 11. desember 2023 12:30

Hulda segir að Grindvíkingar verði ekki rukkaðir um 15 prósent bóta ef þeir flytja í burtu úr bænum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hávær umræða er á meðal Grindvíkinga sem lent hafa í húsatjóni vegna jarðhræringa um að þeir þurfi að greiða 15 prósent bótanna til bæjarins flytji þeir burt samkvæmt lögum. Forstjóri Náttúruhamfaratryggingar segir þessu ákvæði laga ekki hafa verið beitt hjá félaginu og verði ekki beitt í Grindavík.

„Ég get ekki búið þarna áfram“

Margréti Huld Guðmundsdóttir, íbúi að Víkurbraut 36 í Grindavík, hefur gengið illa að fá upplýsingar um stöðu sína. Húsið er gjörónýtt, það sást bersýnilega þegar hún fékk að skoða það í nokkrar mínútur mánudaginn 13. nóvember. Matsmenn hafa jánkað því við hana að húsið sé ónýtt þó hún hafi engin plögg í höndunum enn sem komið er.

Heitavatnslögn fór í sundur og því er mikið af innbúinu einnig ónýtt. Fjögurra manna fjölskyldan býr núna í Dugguvoginum í Reykjavík, í íbúð sem stéttarfélag útvegaði hjá Rauða krossinum. Margrét hefur íbúðina til 15. janúar en ætlar þá að fara til Danmerkur og dvelja þar í húsi sem fjölskyldan keypti  nýlega.

Hún er enn þá að greiða af lífeyrissjóðsláni hjá LSR þar sem ekkert greiðsluskjól hefur verið tilkynnt hjá lífeyrissjóðunum eins og hjá bönkunum.

Margrét segist hafa farið í opnu þjónustumiðstöðina í Tollhúsinu við Tryggvagötu til að spyrjast fyrir um sín mál. Segist hún hafa fengið þau svör að hún þyrfti að greiða 12 prósent förgunargjald fyrir ónýtt hús og að sveitarfélagið gæti tekið 15 prósent bótanna ef hún flytti í burtu.

Hús Margrétar er gjörónýtt eins og sést á myndunum. Myndir/Margrét Huld Guðmundsdóttir

Í 15. Grein laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands segir:

„Náttúruhamfaratryggingu Íslands er heimilt að veita undanþágu frá viðgerðar- og byggingarskyldu skv. 1. mgr. að höfðu samráði við sveitarstjórn að uppfylltu því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni.“

„Ég get ekki búið þarna áfram. Það skiptir meira máli en peningurinn,“ segir Margrét.

Enginn frádráttur

Fleiri Grindvíkingar hafa lýst því sama, jafn vel að upphæðin sem bærinn geti tekið sé allt að 18 prósent ákveði fólk að flytja úr bænum.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, segir þessi ákvæði 15. greinar ekki eiga við um Grindavík.

„Þetta á ekki við í þessum atburði,“ segir Hulda. Segir hún að þetta ætti aðeins við ef það yrði tjón á húsi þar sem allt væri eðlilegt og það bæri að ráðstafa bótunum til viðgerðar en viðkomandi myndi af einhverjum ástæðum alls ekki vilja endurbyggja á sama stað þó að ekkert skipulagslega kæmi í veg fyrir það. Þá væri hægt að fella niður skylduna um að endurbyggja en einnig heimilt að halda eftir 15 prósent af bótunum.

„Þessu myndi aldrei vera beitt í tilvikum þegar eru skipulagslegar ástæður sem liggja að baki, sem klárlega á við í Grindavík. Það eru lóðir sem er ekki hægt að byggja á áfram og yrði ekki leyft að byggja á áfram vegna aðstæðna,“ segir Hulda. Því verður enginn frádráttur.

Aðspurð um hvort þetta eigi við um öll tilfellin í Grindavík segir hún svo vera. Þessi umræða sem sé farin af stað sé hluti af upplýsingaóreiðu sem fylgi atburðum sem þessum.

Ekki sérstakt förgunargjald

Þá segir Hulda það einnig misskilning að eigendur ónýtra húsa þurfi að greiða 12 prósent förgunargjald. Brunabótamat húsa sé þannig uppbyggt að 88 prósent séu til endurbyggingar en 12 prósent til niðurrifs og förgunar. Það berist engin rukkun.

Á morgun klukkan 17:00 fer fram íbúafundur fyrir Grindvíkinga í nýju Laugardalshöllinni. Náttúruhamfaratrygging Íslands verður á fundinum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“