Fjórtán ára sonur Margrétar hringdi sjálfur á sjúkrabíl í gær eftir að hafa fengið verk fyrir hjartað skömmu eftir að hafa innbyrt gosdrykk sem inniheldur talsvert magn af koffíni. Var pilturinn á gangi utandyra þegar hann fann að ekki var allt með felldu.
Margrét segir að sonur hennar hafi keypt drykkinn í verslun með sjálfsafgreiðslukassa og setur hún stórt spurningarmerki við það að hver sem er geti keypt orkudrykki án athugasemda í sjálfsafgreiðslu.
Drykkurinn sem sonur Margrétar keypti heitir Mountain Dew og inniheldur hann talsvert magn af koffíni, eða liðlega 140 mg í einum lítra. Vissulega eru til orkudrykkir í verslunum sem innihalda talsvert meira magn af koffíni og hefði hann að líkindum einnig komist upp með að kaupa þá.
Segist Margréti gruna að pilturinn hafi verið búinn að drekka annan orkudrykk áður en hann keypti sér Mountain Dew.
Sonur Margrétar var útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að læknar höfðu skoðað hann og er hann við góða heilsu núna og eflaust reynslunni ríkari. Margrét segir að eitthvað þurfi að gerast áður en einhver fer sér að voða.
„Það kom upp mál fyrir ekki svo löngu að börn væru að kaupa svitalyktareyði til að reyna að komast í vímu og mér finnst svo furðulegt að það hafi ekki dugað,“ segir Margrét.
Bendir hún á að víða erlendis séu kassar sem veki athygli starfsfólks á því þegar ákveðnar vörur eru stimplaðar inn. Þannig sé að minnsta kosti hægt að tryggja að ólögráða börn kaupi ekki óæskilegar vörur.
Margrét segist vilja vekja athygli á þessu til að vekja fólk og verslunareigendur til umhugsunar.
„Góða hliðin af þessu er að hann lærði vel af þessu sem er gott og gerir þetta örugglega ekki aftur,“ segir hún.