Magnús skrifaði pistil á vef Vísis í gær en tilefnið er þáttur Kveiks í vikunni þar sem fjallað var um íslensku krónuna. Þátturinn vakti talsverða athygli og sjá Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, ástæðu til að gagnrýna efnistökin harðlega og sagði raunar að þátturinn hefði verið hálfgert hneyksli.
Magnús segir í pistli sínum að þátturinn hafi vakið upp kunnuglegar deilur í samfélaginu, krónuna og þann skaða sem veldur almenningi hér á landi. Magnús segir síðan:
„Það er dagljóst að hér á landi eru sveiflur í kaupmætti mun meiri en vera þyrfti ef ekki væri notast við minnsta gjaldmiðil í heimi sem sveiflast eins og laufblað í vindi, þó aðallega í þá átt að missa verðgildi, sitt með þeim búsifjum sem það veldur þeim sem þiggja laun sín í þessum gjaldmiðli, en þurfa að kaupa varning sem er verðlagður eftir því hvað hann kostar í erlendum gjaldmiðlum. Þegar krónan var sett á fót fyrir 100 árum, jafngilti ein íslensk króna einni danskri krónu. Í dag, þegar tekið er tillit til myntbreytingarinnar árið 1981, kostar ein dönsk króna 2000 íslenskar. Er einhver sem vill reyna að halda því fram að þetta sé íslenskum almenningi í hag?“
Magnús bendir einnig á að þá séum við ekki farin að tala um þá staðreynd að hér séu þau kjör sem skuldarar búa til alltaf verri en þau sem gerast í nágrannaríkjunum. Nefnir hann að stýrivextir seðlabankans séu í hæstu hæðum, 9,25%, á meðan stýrivextir Evrópska seðlabankans séu 4,5%.
„Það kom fram í máli Dr. Katrínar Ólafsdóttur, dósents í hagfræði og eins fremsta hagspekings landsins í þættinum að “við munum alltaf hafa hærra vaxtastig en önnur lönd, bara út af krónunni”.“
Magnús spyr svo af hverju þetta er svona.
„Jú, það er vegna þess að ákveðnir aðilar hafa hag af því að hafa þetta svona. Eins og kom vel fram í þættinum stuðlar verðbólgan sem fylgir krónunni að eignatilfærslu í samfélaginu. Þannig fara verðmæti úr vösum almennings og alþýðu í vasa þeirra sem hagnast á þessu kerfi, fyrst og fremst þeirra sem hafa tekjur í erlendri mynt en greiða laun í krónum.“
Alla grein Magnúsar má lesa á vef Vísis en í henni svarar hann einnig ummælum sem Bjarni Benediktsson lét falla á Facebook eftir umræddan Kveiksþátt.