Maðurinn var stöðvaður ásamt konu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á leið úr landi þann 21. nóvember síðastliðinn. Við leit tollvarða fundust í fórum þeirra samtals 29.730 evrur og 26.000 krónur í reiðufé.
Að sögn lögreglu gat fólkið ekki gefið með skýrum hætti hver lögmætur uppruni fjármunanna var og voru þau því handtekin og flutt á lögreglustöð. Peningarnir og farsímar sem fólkið var með á sér voru haldlagðir í þágu rannsóknar málsins.
Maðurinn sem um ræðir sagði að peningarnir sem hann var með á sér væru hans eign og um væri að ræða launagreiðslur og sparnað. Kvaðst hann vera á atvinnuleysisbótum núna. Hann neitaði að heimila lögreglu afritun og rannsókn á innihaldi símans og kvað það vera einkamál sem væri í símanum.
Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, kemur fram að miðað við fyrirliggjandi rannsóknargögn þyki ástæða til að ætla að upplýsingar sem geta skipt miklu fyrir framgang rannsóknar málsins fáist með umbeðinni rannsóknaraðgerð.
Nær heimildin til leitar, skoðunar og afritunar á þeim rafrænu gögnum sem síminn kann að geyma og þeim skýjaþjónustum sem hafa verið notaðar með símanum, hvort sem er að ræða samfélagsmiðla, samskiptaforrit, tölvupósta eða gagnageymslur.