Greint er frá því á Facebook-síðu embættis forseta Íslands að breski lögmaðurinn Tim Ward hafi í dag verið sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslenskra hagsmuna á alþjóðavettvangi. Ward fór fyrir lögmönnum Íslands í dómsmáli sem rekið var fyrir EFTA-dómstólnum en íslenska ríkið var þá ákært fyrir að standa ekki við skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum þegar kom að tryggingu innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Eins og kunnugt er dæmdi dómstóllinn Íslandi í vil og íslenska ríkið bar því ekki frekari ábyrgð á að standa straum af kostnaði við að greiða út innistæðurnar.
Haft er eftir Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, um Tim Ward, í færslunni á Facebook-síðu embættisins:
„Hann fór fyrir vaskri lögmannasveit sem varði málstað Íslands í Icesave-deilunni fyrir EFTA-dómstólnum. Fyrr á þessu ári var réttur áratugur liðinn frá því að dómur féll í því máli, Íslandi í vil. Fróðlegt var að ræða við Ward og aðra gesti á Bessastöðum um málið og margt sem því tengist. Tim Ward er sannkallaður Íslandsvinur.“