Eins og greint var frá í gær eru niðurstöðurnar reiðarslag fyrir Ísland en íslenskir nemendur eru eftirbátar jafnaldra sinna þegar kemur að hæfni í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindum.
Af ríkjum OECD er Ísland nálægt botninum og er bent á það í umfjöllun Morgunblaðsins að af 37 löndum fá aðeins fimm lægri einkunn en Ísland. Þetta eru Grikkland, Chile, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía.
Jón Pétur er ómyrkur í máli í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Viðbrögðin eru, bara vægast sagt, stórfurðuleg finnst mér, hjá þeim sem hafa tjáð sig núna um niðurstöðurnar. Það eina sem stjórnvöld og yfirvöld, hvort sem það eru kennarasamtök, sveitarfélög eða ríki, geta gert – við getum ekki breytt foreldrum. Við höfum ekki til þess tæki. En við getum skoðað hvað við erum að gera í skólunum og hvað hefur verið að breytast síðustu árin, og reynt að horfa gagnrýnum augum á það.“
Jón Pétur nefnir að fólk tali um kerfisbreytingar og að heimilin þurfi að gera eitthvað.
„Við sem skólasamfélag verðum að horfast í augu við hvað við höfum verið að gera. Við verðum að axla ábyrgð á því. Skólakerfið kostar næstum 200 milljarða og hvað fáum við út úr því? Við fáum út úr því að rúmlega 50% drengja geti lesið sér til gagns. Þetta er bara ekki boðlegt,“ segir hann og vill meina að það þýði ekki að skólakerfið bendi á einhverja aðra.