Gunnar Smári birti mynd úr PISA-könnuninni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og má kannski segja að hún sé nokkuð lýsandi fyrir íslenska þjóð.
Á myndinni, sem var að finna í glærukynningu þar sem niðurstöðurnar voru kynntar, sést að íslenskir nemendur skora hærra en jafnaldrar sínir annars staðar þegar kemur að þrautseigju og streituþoli.
Í PISA-könnuninni er þrautseigja skilgreind með þessum orðum: „Hæfni til þess að leiða hjá sér truflun og einbeita sér að fyrirliggjandi verkefni þar til því er lokið.“
Og streituþol er skilgreint með þessum orðum: „Hefur stjórn á kvíða og getur leyst vandamál á yfirvegaðan hátt. Vinnur vel undir álagi.“
En þegar kemur að samkennd og samvinnu skora íslensk ungmenni lægra en jafnaldrar sínir í öðrum löndum.
Gunnar Smári segir á Facebook-síðu sinni um myndina:
„Þessi mynd úr Pisa-könnuninni er af börnum kommaso-þjóðarinnar, sem vill sýna hörku og ákveðni en er að umbreytast í sálar- og hjartalausa plebba upptekna af samkeppni í stað samkenndar. Fólk sem vill sigra aðra en ekki vinna með þeim. Það er eins og íslensk samfélagsvitund sé að hrynja niður á stig Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.“