Fjallað hefur verið um mál drengjanna, Yazan og Sameer, í fjölmiðlum hér á landi síðustu daga.
Drengirnir eru frændur, búsettir í öryggi hjá íslenskum fjölskyldum hér á landi en hafa eðli málsins samkvæmt miklar áhyggjur af ættingjum sínum sem dvelja enn á Gasa-svæðinu. Drengirnir eiga að óbreyttu von á því að verða sendir úr landi þar sem þeir hafa fengið neitun um vernd.
Elísabet skrifar stutta grein um málið í Morgunblaðið í dag þar sem hún lýsir óánægju sinni.
„Stefna í útlendingamálum nær nýjum hæðum í ömurð og fáránleika, eins og vinkona mín sagði á Feisbúkk. Samfélagsmiðlar loga nú sem aldrei fyrr enda geri ég þá kröfu að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stígi fram og útskýri þetta mál því það botnar enginn í því, sama og upp var á teningnum með Hussein og fjölskyldu hans. Ég krefst þess að hún stígi fram og útskýri þetta mál, ég krefst þess að hún bjargi drengjunum.“
Elísabet hefur miklar áhyggjur af því sem kann að bíða drengjanna sem eru aðeins 12 og 14 ára gamlir.
„Í Grikklandi bíður þeirra ekkert nema vændi og eiturlyfjaneysla – ef þeir eru heppnir! Vanmáttur minn í þessi máli er slíkur að hann minnir á vanmáttinn gagnvart stríðinu á Gasa. En ég ætla að opna munninn. Þótt íslenskir ráðamenn taki af mér sjálfsvirðinguna og reisnina þá munu þeir ekki taka tungumálið frá mér.“