fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

„Það er okkar val að veita stórfyrirtækjum fullkominn og óheftan aðgang að heilli kynslóð“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 5. desember 2023 08:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstöður PISA 2022 verða kynntar í dag en um er að ræða könnun á vegum OECD á hæfni og getu 15 ára nemenda á ýmsum sviðum, meðal annars í lesskilningi. Ljóst er að margir bíða fullir eftirvæntingar eftir niðurstöðunum.

Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, skrifaði færslu á Facebook í gærkvöldi sem vakti töluverða athygli. Hann á ekki von á góðum niðurstöðum að þessu sinni.

„Hnignandi lesskilningur ungmenna (á íslensku) er í raun langdreginn skilnaður ungs fólks við íslenskt samfélag og málheim. Menntaskólaíslenska síðustu aldar hefur ekki fylgt ungu fólki inn í hinn stafræna heim og er nánast einkamál okkar kverúlantanna sem hírumst á Facebook. Nú er korter í Pisa og enn mun það staðfestast að ungir Íslendingar hugsa hvorki né tjá sig á annars stigs orðaforða íslenskunnar. Ekkert hefur enn verið gert til að stöðva það ferli,“ sagði Ragnar í færslu sinni og bætti við að við munum aldrei neyða unga fólkið til að nota íslensku en hægt sé að auðvelda því það.

„En þá þurfum við að bera meiri virðingu fyrir heimi hinna ungu og brjóta odd af oflæti okkar. Það er ekki eins og það sé glæsilegt samfélagið sem við erum að bjóða þeim að erfa. Það er mikið verk að vinna. Þar dugar engin íhaldssemi. Lausnin er að glæða líf hinna ungu bjartsýni með því að gefa ungu fólki tilefni til að gleðjast og hlakka til,“ sagði hann.

Óheftur aðgangur að heilli kynslóð

Andri Snær Magnason rithöfundur lagði orð í belg við færslu Ragnars.

„Það er okkar val að veita stórfyrirtækjum fullkominn og óheftan aðgang að heilli kynslóð. Risavaxin samfélagstilraun sem hefur sýnt fáar jákvæðar hliðar, hnignandi orðaforði er hrein hnignun. Það er ekkert tæknilæsi sem vegur upp á móti því.“

Ragnar svaraði á móti að hver einasta kynslóð hefði staðið frammi fyrir sama vanda og sjóndeildarhringurinn gliðnað með hverri kynslóð.

„Einu sinni var það kanasjónvarpið og kúrekamyndir, Elvis, Bítlarnir, VHS, Betamax, Sinclair Spectrum, Commodore 64, Duran Duran og Wham!… Vídeóleigur og plötubúðir eyðilögðu ekki íslenskuna, ekki frekar en Lennon og McCartney. Það þarf einfaldlega alltaf að flytja málið milli kynslóða og leyfa því að fara í ný spariföt. Meðan börn finna ekki hugtök á íslensku fyrir að camp-a, spawn-a, seen-a og add-a halda þau áfram að byggja sinn mál- og hugmyndaheim á ensku. Meðan við sitjum föst í okkar fordómum fyrir unglingamenningu fjarlægjast krakkarnir okkur. Við erum ekki fyrsta kynslóðin sem heldur því fram (næstum hræsnislaust) að menning hinna ungu sé að eyðileggja fólk. Það er frekar regla en undantekning,“ sagði Ragnar Þór.

„Hnignun, ekki breytingar“

Andri Snær svaraði að bragði og sagðist hafa meiri áhyggjur af því að stór hópur standi uppi án málheims en að slettur skjóti sér inn í tungumálið.

„Þessi gamla saga – að einu sinni voru menn hræddir við Elvis – að þar með séu allar áhyggjur sama áhyggjan. Kannski sýndu áhyggjur fyrri tíma að fólki stóð ekki á sama og fannst ekki að breytingar ættu að gerast átakalaust – og úr því verður til einhver niðurstaða. Ég hef meiri áhyggjur af því að stór hópur standi uppi án málheims, heldur en nokkrar slettur eins og að adda og seena skóti sér inn í tungumálið að þau standi uppi hvorki með færni í íslensku né ensku, og hugmyndaheimurinn er að litlum hluta þeirra – miklu frekar er þetta algóritmi stórfyrirtækja, og þessir átta – tólf tímar á dag eru stökkbreyttur geislavirkur Elvis á sterum. Ég ætla að trúa því að bækur skipti máli – og að það sé ekki náttúrulögmál að allt í einu verði til heil kynslóð sem hefur ekki aðgang að samfellu og sögu kynslóða. Prime orkudrykkurinn er ekki unglingamenning, Purrkur Pilnikk var það. Tækin, forritin, auglýsingarnar, efnið, leikirnir, viðmótið – allt hannað af jafnöldrum okkar, ekki unglingum,“ sagði Andri Snær sem hnykkti að lokum á að hann trúi á framfarir.

„Ég tel að stærstu framfarir síðustu 150 ára hafi verið almennt læsi. Og að það sé enn mælikvarði á framfarir – ekki fjöldi raftækja eða snertiskjáa. Ef orðaforða fer hnignandi, ef færni til að tjá sig í rituðu eða mæltu máli fer hnignandi, þá á sér stað hnignun, ekki breytingar. Og það gerist vegna þess að við ruglum saman unglingamenningu og hagsmunum tæknifyrirtækja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi