Þetta segir Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur og einkaþjálfari, betur þekkt sem Ragga nagli, í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Þar skrifar hún um mál ungra frænda frá Palestínu og eru búsettir hér á landi. Ef fer sem horfir verða drengirnir báðir sendir til Grikklands þar sem þeirra býður væntanlega fátt nema eymd og volæði.
Fjallað hefur verið um mál drengjanna en þeir dvelja á Íslandi hjá fósturfjölskyldum þar sem vel er hugsað um þá. Ragnhildur skrifar áhrifamikinn pistil um málið á Facebook en málið er henni hjartfólgið enda hefur hún verið í samskiptum við fósturfjölskyldu annars drengsins.
„Naglinn er með brotið hjarta. Vonleysi í sálinni. Vantrú á mannkynið. Tveir palestínskir drengir eiga yfir höfði sér að vera vísað úr landi til Grikklands þar sem þeirra bíða vosbúð, kuldi, örbirgð og ömurð.“
Ragga bendir á að Sameer, 12 ára, og Yazan, 14 ára, hafi gengið hér í skóla, stundað fótbolta, upplifað öryggi og ástúð frá fósturforeldrum. Þeir hafi líka lært íslensku og leikið sér með nýjum félögum.
„Drengir sem komu til Íslands í leit að betra lífi og skjóli fyrir hörmungum heimalands síns. Þar sem þeirra bíður líklega ekkert nema opinn dauðinn. Þjóðarmorð á epískum skala. Þeirra bíða nöturlegar og viðurstyggilegar aðstæður í Grikklandi. Með fordæmalausri vanvirðingu og harðneskju yfirvalda og Útlendingastofnunar sendir til að sofa á hörðum trébekk í almenningsgarði í Grikklandi. Þar sem er hrækt á þá. Þar sem þeir þurfa að betla fyrir mat.“
Ragga segir að börn eigi að njóta áhyggjulausrar æsku með sár á hné eftir tæklingu í fótbolta en ekki sprengjubrot í augum.
„Aðaláhyggjurnar eiga að vera bólan á nefinu, en ekki hvort þau fái að borða í dag. Að hafa frelsið til að fara út í eltingaleik í stað þess að híma í sprengjubyrgi heilu dagana. Aðalóttinn sé hvort sæta stelpan sé skotin í þér, en ekki hvort þú lifir daginn af. Að sofa vært á nóttunni í hlýju rúmi en ekki liggja andvaka á hörðu steingólfi í niðursprengdum rústum nötrandi af hræðslu við sprengingar. Að vera með áfallastreituröskun, martraðir, kvíðaköst og ofurvakandi taugakerfi allt sitt líf eftir að hafa upplifað mestu hörmungar og grimmd mannskepnunnar.“
Ragnhildur segir útilokunarstefnu Íslands í innflytjenda- og hælisleitendamálum vera þyngri en tárum taki.
„Land sem trónir á toppi lífsgæða á allri jarðarkringlunni. Land sem ítrekar skorar hæst í lífsgæðum. Með auðlindir og auðmagn, nægilegt pláss og bolmagn til að taka á móti miklu fleiri bágstöddum sem þrá ekkert meira en öryggi. Útlendingastefna sem skellir í lok lok og læs fyrir okkar bágstöddustu börnum…. BÖRNUM….í leit að skjóli og vernd fyrir hræðilegustu aðstæðum sem finnast á jarðarkringlunni og opnum dauða. Lög eru mannanna verk og þeim má breyta því hér passa lög og siðferði ekki saman.“
Hægt er að lesa allan pistil Röggu hér að neðan en í honum hvetur hún einnig lesendur til að láta í sér heyra og senda Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra skýr skilaboð um að drengirnir verði ekki sendir úr landi.