Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni kemur fram að Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, hafi í dag kynnt kjarapakka flokksins. Í tilkynningunni er haft eftir Kristrúnu:
„Nú verður að milda höggið fyrir heimilin. Samfylkingin vill aðhald þar sem þenslan er í raun. Það er lykillinn að því að vinna bug á verðbólgunni.“
„Á tímum hárra vaxta og verðbólgu er ótrúlegt að ríkisstjórnin sé að minnka stuðning við skuldsett heimili og leigjendur. Samfylkingin vill fara aðra leið. Þess vegna kynnum við í dag kjarapakka sem gengur út á að vinna bug á verðbólgunni — með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru — og um leið að milda höggið fyrir heimilin.“
Í tilkynningunni segir enn fremur að eins og fram hafi komið í fjölmiðlum verði 5.000 heimilum hent út úr vaxtabótakerfinu ef fjárlög ríkisstjórnarinnar verði samþykkt óbreytt. Sömuleiðis lækki fjárheimildir fyrir húsnæðisbætur til leigjenda á milli ára.
Um kjarapakkann segir í tilkynningunni að tillögur kjarapakkans falli undir tvo flokka sem bera yfirskriftina „Mildum höggið fyrir heimilin“ og „Vinnum bug á verðbólgunni“. Fyrir utan stuðning við skuldsett heimili sé þar meðal annars að finna vaxtabætur fyrir bændur og aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi — svo sem með því að ná stjórn á Airbnb, tímabundinni leigubremsu að danskri fyrirmynd og ívilnun til uppbyggingar almennra íbúða.
Loks séu í kjarapakkanum tillögur um 24 milljarða aðhald á tekjuhlið ríkissjóðs — en þar af sé gert ráð fyrir 6 milljörðum til að fjármagna aðgerðir vegna ástandsins í Grindavík, svo sem afkomutryggingu og leigustuðning. Tekjutillögurnar séu óbreyttar frá þeim kjarapakka sem Samfylkingin kynnti fyrir fjárlög og kjarasamninga í desember í fyrra.
Kjarapakkinn í heild sinni er eftirfarandi:
„MILDUM HÖGGIÐ FYRIR HEIMILIN
6 milljarðar í vaxta- og húsnæðisbætur. Hækkum vaxtabætur vegna hærri vaxta. Styðjum 10.000 skuldsett heimili til viðbótar – í stað þess að henda 5.000 heimilum úr vaxtabótarkerfinu.
Hækkum húsnæðisbætur til leigjenda. Tryggjum að húsnæðisbætur haldi verðgildi sínu í stað þess að lækka milli ára. Vaxtabætur til bænda. Tímabundinn stuðningur sem beinist til bænda með þunga vaxtabyrði.
Aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi. Náum stjórn á Airbnb og skammtímaleigu íbúða. Tímabundin leigubremsa að danskri fyrirmynd. Ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum.“
„VINNUM BUG Á VERÐBÓLGUNNI
24 milljarðar í aðhald á tekjuhlið. Aðhald þar sem þenslan er í raun. Hækkum fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%. Lokum „ehf.-gatinu“. Álag á veiðigjald stórútgerða. Afturköllum bankaskattslækkun.
Þar af 6 milljarðar til að fjármagna aðgerðir vegna ástands í Grindavík. Fjármögnum aðgerðirnarþ Brýnt er að fjármagna öll fyrirséð útgjöld til að kynda ekki undir verðbólgu – þar á meðal afkomutryggingu og leigustuðning fyrir Grindvíkinga.“