Jón Steinar gerir bókina að umtalsefni á Facebook-síðu sinni en bókin, Eimreiðarelítan Spillingarsaga, er sögð fylgja frægustu valdaelítu nútímans frá upphafi áforma hennar um yfirráð yfir Íslandi.
Sjá einnig: Spillingarsaga byggð á óbirtum trúnaðargögnum Landsbankans – Lítill hópur með lygileg völd í langan tíma
Það er skemmst frá því að segja að Jón Steinar tilheyrði Eimreiðarhópnum en margir í þeim hópi komust til áhrifa í íslensku þjóðlífi, menn eins og Davíð Oddsson, Geir H. Haarde, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Baldur Guðlaugsson svo einhverjir séu nefndir.
Í lýsingu á bókinni segir að á hátindi pólitískrar sigurgöngu umræddrar valdaelítu hafi afhjúpast mesta fjármálaspilling sem sannast hefur í markaðskerfi í heiminum og kveikti umfangsmeiri fjársvikarannsóknir en áður hafa þekkst í Evrópu.
Jón Steinar gefur bókinni ekki háa einkunn.
„Þetta er ekki góð bók. Auk þess að vera afar illa skrifuð hefur hún að geyma endalausar tilgátur höfundar um misgerðir og spillingu vinahóps sem nefndur hefur verið Eimreiðarhópurinn. Ekkert er hæft í neinu af þessu,“ segir Jón Steinar meðal annars og varpar frekara ljósi á Eimreiðarhópinn sem hann tilheyrði sjálfur.
„Þetta voru vinir sem allt frá námsárunum í Háskóla Íslands deildu svipuðum skoðunum aðallega í stjórnmálum, en einnig í öðrum þjóðfélagsmálum, svo sem meðferð dómsmála o.fl. Ég var einn þeirra sem tilheyrðu þessum hópi manna. Við hittumst reglulega til að snæða hádegisverð saman og ræða mál sem til umræðu voru á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Mörg dæmi eru um að gamlir vinir og skoðanabræður hittist á svipuðum nótum og er ekkert nema gott um það að segja.“
Jón Steinar segir að svo standi á að félagarnir í þessum hópi hljóti að hafa verið góðum kostum búnir, því nokkrir þeirra hafi valist til áhrifamikilla trúnaðarstarfa í þágu íslensku þjóðarinnar og því orðið kunnir almenningi.
„Til allra þessara starfa voru þeir valdir á þann hátt sem lög og lýðræðislegar meginreglur kveða á um. Í framangreindri bók er að finna ótrúlegt samsafn af staðleysum og hreinum ósannindum um félagana í Eimreiðarhópnum. Ekki verður betur séð en bókin sé skrifuð í þágu pólitískra skoðana höfundarins og baráttuglaðra sósíalista sem virðast hafs stutt hann til þessa sóðalega verks. Það hefur svo líka verið talið söluvænt hversu hægt var að „droppa“ þekktum nöfnum í óhróðrinum.“
Jón Steinar segir að honum sé ekki kunnugt um að Eimreiðarhópurinn hafi haft samráð um gjörðir einstakra manna í hópnum.
„Þar vann hver maður fyrir sig að þeim verkefnum sem honum höfðu verið falin, oftast af þjóðinni sjálfri. Slíkar athafnir voru ekki bornar undir hina félagana, þó að ég geri ráð fyrir að þeir hafi oftast verið sammála afstöðu þess sem í hlut átti, enda vorum við yfirleitt skoðanabræður um þjóðfélagsmálin, eins og fjölmargir Íslendingar voru einnig í hverju tilviki fyrir sig.“
Jón Steinar segir að lokum að það væri of langt mál að tíunda missagnir og tilbúnar ályktanir sem birtast í bókinni. Hann ákveður þó að nefna stuttan kafla um sig sjálfan sem birtist á blaðsíðum 52-53 í bókinni.
„Þar er að finna órökstuddar dylgjur um mig og störf mín sem málflytjandi og dómari við Hæstarétt og sagt að þessi störf mín hafi helgast af samráði eða fyrirmælum félaga minna í Eimreiðarhópnum. Um þetta segi ég bara: Þetta er tilhæfulaust rugl. Það gerðist aldrei í þessum störfum mínum að ég leitaði eftir afstöðu félaga minna eða vissi sérstaklega um hana, áður en ég tók ákvarðanir um mína. Sjónvarpsviðtal, sem pólitíski ákafamaðurinn Gunnar Smári Egilsson átti við höfundinn, segir kannski meira en mörg orð um þetta lágkúrulega rit. Þar kom fram að Gunnar Smári hamraði á spillingu okkar félaganna og sagði í hverju hún átti að hafa falist. Það var eins og veigalítill höfundur bókarinnar væri spyrjandinn en Gunnar Smári svarandi. Og hann sparaði okkur ekki kveðjurnar blessaður eldhuginn.“