Þetta segir Skírnir Garðarsson prestur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Skírnir steig fram á sama vettvangi fyrir rúmri viku síðan þar sem hann skrifaði um þjóðkirkjuna og umdeildar ákvarðanir efstu ráðamanna þar. Sneru skrifin að óþægindum og þjáningum sem prestar og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir vegna meintra gerræðislegra ákvarðana biskupanna.
Sjá einnig: Alvarlegt mál sem krefst skoðunar, segir Skírnir: Sláandi dæmi um óréttlæti, mismunun og kúgun
Í grein sinni í dag nefnir hann nöfn meintra brotaþola en alls er um að ræða níu einstaklinga sem hafa stigið fram og lýst samskiptum sínum við Þjóðkirkjuna. Í þessum hópi eru til dæmis Gunnar Björnsson, Ólafur Jóhannsson, Úrsúla Árnadóttir og Kristinn J. Sigurþórsson svo nokkrir séu nefndir.
„Þarna hafa biskuparnir snúið baki við samtals 318 ára starfsreynslu og þekkingu, nánast án þess að depla auga, þótt reyndar hafi tveimur eða þremur prestanna verið leyft að dútla eitthvað í sérverkefnum á kaupi. Allir hinir hafa bara verið núllaðir út úr þjónustunni sem þeir voru vígðir til.“
Skírnir segir það vekja athygli að meðal þeirra níu presta sem um ræðir séu menn lærðastir sinnar stéttar á ýmsum sviðum, til dæmis sálgæslu, kirkjusögu og kirkjuréttar.
„Engir aukvisar með öðrum orðum. Fólk sem árum saman aflar sér prestsmenntunar, starfar af heilindum í söfnuðum sínum, og á fjölskyldur og ættmenni sem hjálpa til við uppbyggjandi og heilladrjúgt starf innan kirkjunnar á það ekki skilið að vera kastað út si-svona, eins og í sumum tilfellum er staðreynd. Þó svo að í einhverjum tilvikum einhverjum prestanna hafi orðið eitthvað lítils háttar á í messunni er það samt sem áður mjög mikilvægt að gæta meðalhófs og sanngirni, og má segja að biskupar hafi brugðist því hlutverki sínu.“
Skírnir segir að nú sé tími uppgjöra.
„Þolendur óréttmætra ákvarðana og misréttis stíga fram og stjórnsýslan verður fyrir gagnrýni úr ýmsum áttum fyrir meintar misgjörðir sínar gagnvart launþegum, starfsfólki og almennum borgurum. Þjóðkirkjan ætti nú að ganga á undan með góðu fordæmi og leiðrétta misgjörðir sínar, biðjast afsökunar, skila embættum sem að ósekju hafa verið af réttkjörnum prestum tekin og skammast sín í ofanálag.“