Vilhjálmur Ari Arason, læknir á slysa- og bráðamóttöku LSH, segir í nýrri grein á bloggi sínu að algjör forsendubrestur sé orðinn varðandi sjúkraþyrluflug að Nýja þjóðarsjúkrahúsinu á Hringbraut. Vegna þess hversu þétt er búið að byggja að sjúkrahúsinu sé slíkt flug orðið stórhættulegt og nú sé rætt á bak við tjöldin að afskrifa þyrlupall á 5. hæð spítalans sem hefur verið á dagskrá. „Reykjavíkurborg hefur að mínu mati svikið þjóðina í græðgisvæðingu á eigin landi á kostnað þjóðaröryggis og almannaheill,“ segir Vilhjálmur Ari og spyr um ábyrgð stjórnvalda.
Í grein sinni fer Vilhjálmur yfir að í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem lá upphaflega til grundvallar staðsetningu Nýja þjóðarsjúkrahússins á Hringbraut, hafi verið áréttuð nauðsynleg þörf sjúkraþyrluflugs. „Allt var gert af þeirra hálfu að halda í stærsta vinnustað landsins á Hringbrautinni og öllu fögru lofað. Lögð var blessun yfir fyrirhuguðum þyrlupalli á 5. hæð nýja rannsóknahússins. Gert var ráð fyrir stórum þyrlum svipuðum og LHG hefur nú yfir að ráða. Ekki var hlustað á viðvörunarorð margra sem best þekkja til um slysahættu með slíku flugi við óörggar aðstæður. Öruggar aðflugsbrautir vantaði (opin svæði á jörðu fyrir nauðlendingar), auk mengunaráhrifa á nærliggjandi umhverfi og hávaðatruflunar,“ skrifar Vilhjálmur Ari.
Eftir að byggingaframkvæmdir við nýjan spítala hófust úthlutaði borgin svo, með nýju Aðalskipulagi, nýju byggingahverfi til íbúabyggðar sunnan við spítalasvæði. Eitthvað sem Vilhjálmur Ari fullyrðir að muni gera allt aðflug að fyrirhuguðum þyrlupalli en hættulegra.
„Í raun nú algjör forsendubrestur miðað við upphaflegar áætlanir og sem samt voru vafasamar eins og áður sagði og sem kallar auðvitað á nýja öryggisúttekt flugmála- og heilbrigðisyfirvalda. Í raun er þegar verið að ræða bak við tjöldin að afskrifa möguleikann á þyrlupalli á 5. hæð nýju Landsspítalabyggingarinnar,“ skrifar Vilhjálmur Ari.
Hann bendir á að búið sé að byggja mikið og þröngt upp á gömlu Valslóðinni og á landsvæði við NA-enda gömlu neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar. „Allt venjulegt sjúkraflug í misjöfnum veðrum og í ákveðnum vindáttum mikið erfiðara og hættulegra, og dæmi um að slíkum flugum hefur verið snúið á síðustu stundu, allt til Akureyrar eins og nýlegt dæmi er um. Stefna borgarinnar er síðan að leita allra leiða til að losna við flugvöllinn fyrir fullt og allt og fá enn meira byggingasvæði í Vatnsmýrinni, Skerjafirði og jafnvel í Öskjuhlíðinni.“
Nálægðin við flugvöllinn, sem og HÍ, hafi verið ein af meginforsendum staðarvals nýja spítalans enda er endastöð alt að 1000 sjúkrafluga staðsett þar í dag.
Ein af meginforsendum staðarvals Nýs Landspítala auk nálægðar við HÍ var nálægðin við Reykjavíkurflugvöll og þar sem endastöð allt að 1000 sjúkrafluga er staðsett í dag. „Sjúkraþyrluflug eru þegar um 300 og eykst sífellt með vaxandi ferðamannastraumi og lélegri mönnun heilbrigðisstarfsfólks á landsbyggðinni. Um sextíu flug á ári talin í það miklum forgangi að lenda þarf á þyrluvelli BMT LSH í Fossvogi. Stór hluti sjúkrafluga er enda bráðamál og þar sem hver mínúta getur skipt máli, jafnvel skilið á milli lífs og dauða. Einn mikilvægast þáttur BMT Landspítala var að tryggja örugga aðkomu þangað með sem minnstu töfum. Skipulagið í dag er hins vegar stórhættulegt og forsendubrestur algjör með væntanlegt þyrluflug á spítalann við Hringbraut. Auk þessa hefur verið svínað á annarri forsendu staðarvals Nýja Landspítalans á Hringbraut og sem voru samgöngubætur landleiðina að ÁÐUR en framkvæmdir hæfust. Ekki áratugum á eftir,“ skrifar Vilhjálmur Ari.
Segir hann að í óefni sé komið og nú sé verið að skoða einhverjar eftir á reddingar.
„Reykjavíkurborg hefur að mínu mati svikið þjóðina í græðgisvæðingu á eigin landi á kostnað þjóðaröryggis og almannaheill. Stjórn Nýs Landspítala ohf. stöðugt með hausana í Hringbrautarklöppinni og hugsa mest um stál og steypu. Hvar liggur hins vegar ábyrgð stjórnvalda á þessu klúðri? Stærstu og alvarlegustu skipulagsmistökum Íslandssögunnar að mínu mati. Að ekki sé talað um aukakostnaðinn tengt skipulagi á framkvæmdunum öllum frá upphafi upp á hundruðir milljarða króna. Ætlar stjórnsýslan ekkert að læra og biðja þjóðina afsökunar á mistökum sem margir voru búnir að benda á og hefði mátt fyrirbyggja með meiri opinni umræðu, í stað þöggunar,“ skrifar Vilhjálmur Ari.
Grein hans má lesa í heild sinni hér.