Skynews greinir frá því að Karl konungur Bretlands hafi í ræðu sinni, fyrr í dag, á loftslagsráðstefnunni COP28 í Dubai verið með bindi um hálsinn sem er alsett litlum grískum fánum. Mögulegt er að með þessu sé konungurinn að senda Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands skilaboð en ráðherrann hefur tekið fálega í kröfur grískra stjórnvalda um að grískum fornmunum sem breska þjóðminjasafnið (e. British Museum) er með í vörslu sinni verði skilað. Hefur þetta skapað deilur milli ríkjanna.
Faðir Karls, Fillipus hertogi af Edinborg, var fæddur inn í grísku konungsfjölskylduna meðan Grikkland var enn konungdæmi. Konungurinn var hins vegar settur af þegar Fillipus var 18 mánaða.
Vasaklútur Karls var í stíl við bindið, blár og hvítur sem eru fánalitir Grikklands.
Bindi og vasaklútur konungsins fylgja í kjölfar diplómatískra deilna milli Bretlands og Grikklands eftir að Sunak aflýsti fundi með Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra Grikklands. Átti fundurinn að snúast ekki síst um kröfu Grikkja um að höggmyndum sem fjarlægðar voru úr Meyjarhofinu á Akrópólishæð í Aþenu og fluttar til Bretlands yrði skilað.
Sögðu bresk stjórnvöld að fundinum hefði verið aflýst þar sem Grikkir hefðu brotið samkomulag um að krefjast þess ekki opinberlega að höggmyndunum yrði skilað.
Grísk stjórnvöld kannast hins vegar ekki við að hafa samþykkt að gera það ekki.
Einnig er mögulegt að bindaval konungsins hafi verið hugsað til að bæta samskipti ríkjanna. Sunak virtist að minnsta kosti ekki taka bindavalið óstinnt upp og hrósaði konunginum í hástert, í færslu á samfélagsmiðlinum X, fyrir að hafa barist fyrir umhverfisvernd undanfarin 60 ár.
Laura Bundock sem flytur fréttir af konungsfjölskyldunni fyrir Skynews segir að konungurinn hafi vitað vel að tekið yrði eftir bindinu.
Hún segir að Grikkir líti á bindið sem stuðningsyfirlýsingu af hálfu Karls en Bundock veltir fyrir sér hvort um sé að ræða pólitískan stuðning eða persónulegan í ljósi grísks uppruna föður Karls.
Bundock segir einnig vel geta verið að bindið sé í sérstöku uppáhaldi hjá Karli. Hann sé þekktur fyrir að þola ekki sóun og sé ekki feiminn við að nota sömu flíkurnar oft.
Það sé einnig mögulegt að konungurinn hafi verið beðinn af breskum diplómötum um að vera með bindið og þeir hafi talið það skapa tækifæri til að sýna Grikkjum vinarþel.
Sunak hafnar orðum George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins og núverandi stjórnarformanns breska þjóðminjasafnsins, um að forsætisráðherrann hafi fengið frekjukast þegar hann aflýsti fundinum með gríska forsætisráðherranum.
Osborne segir að samt sem áður muni viðræður sem staðið hafi yfir halda áfram. Snúast viðræðurnar um að höggmyndirnar verði lánaðar til Grikklands.
Sunak segist hafa sagt allt sem hann hafi að segja um málið.
Karl hefur áður sagt að Grikkland eigi sérstakan stað í hjarta sínu.
Hann hefur áður skartað bindinu með grísku fánunum opinberlega. Nú síðast í opinberri heimsókn í Suður-Kóreu viku áður en deilurnar um höggmyndirnar brutust út.